Meðalbiðtími eftir félagslegu húsnæði á landinu: 2½ ár
Meðalbiðtími eftir félagslegu húsnæði á Íslandi er 30 mánuðir, eða tvö og hálft ár, miðað við síðustu könnun Varasjóðs húsnæðismála á málaflokknum. Biðtíminn er hótinu lengri á höfuðborgarsvæðinu, frá þremur árum í Reykjavík upp í fjögur ár í Hafnarfirði. Svæðið vegur þungt í útreikningi landsmeðaltals enda berast flestar umsóknir þar.
Er hér miðað við könnun frá árinu 2016. Varasjóður húsnæðismála veitir sveitarfélögum, samkvæmt húsnæðislögum, ráð og safnar upplýsingum um stöðu félagslegs húnsæðis, meðal annars. Sjóðurinn framkvæmir um þessar mundir nýja könnun um stöðu málaflokksins. Ekki er ekki útlit fyrir að hún birtist fyrr en eftir um þrjár vikur, það er eftir kosningar.
Guðni Kristjánsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, segir að tilfinning hans fyrir þeim niðurstöðum sem þó eru komnar í hús sé ekki að biðtími eftir félagslegu húsnæði hafi styst, heldur lengst ef eitthvað er, frá því að síðasta könnun sjóðsins var birt, árið 2016.
Biðtíminn stendur í stað eða lengist í stærri sveitarfélögum
Samkvæmt skýrslunni 2016 var meðalbiðtími eftir félagslegu húsnæði þá lengstur í Hafnarfirði, 48 mánuðir eða full fjögur ár. Í Reykjavík og Hveragerði var hann 36 mánuðir, og á Akureyri 30 mánuðir.
Í skýrslu ársins 2016 vantaði gögn frá Kópavogi. Árið áður, 2015, var meðalbiðtími þar 36 mánuðir.
Annars staðar á landinu var meðalbiðtími eftir félagslegu húsnæði frá einum mánuði, í Fljótsdalshéraði, í 18 mánuði á Hornafirði og Seltjarnarnesi.
Aðspurður hvort einhver sveitarfélög standi út úr sem frávik frá þróuninni, hvort biðtíminn virðist hafa styst umtalsvert í einhverju sveitarfélagi, segir Guðni að svo virðist ekki vera hjá stærri sveitarfélögunum. Erfitt sé að bera þau saman við önnur smærri, vegna þess hve eftirspurn eftir félagslegu húsnæði sé sveiflukennd í smærri sveitarfélögum.
Í 2016-skýrslunni er hermt að meðalbiðtími eftir félagslegu húsnæði á landinu öllu sé 13,3 mánuðir. Þeir útreikningar eru rangir, miðað við gögn skýrslunnar sjálfrar, og virðast byggja á því að gefa hverju sveitarfélagi sama vægi: 1 mánaðar biðtími 12 umsækjenda í Fljótsdalshéraði er þar metinn til jafns við 36 mánaða biðtíma nær 100-falt fleiri umsækjenda í Reykjavík.
Vegið meðaltal á biðtíma þeirra sveitarfélaga sem skiluðu gögnum árið 2016, auk Kópavogs, er um 30 mánuðir.
Ljósmynd, cc: Vladimir Varfolomeev