Mánaðarlaun Ármanns hálfri milljón hærri en borgarstjóra New York
Mánaðarlaun bæjarstjórans í Kópavogi eru næsthæstu laun bæjar- og borgarstjóra í heimi, samkvæmt samantekt launakjara þeirra á Wikipediu.
Ármann Kr. Ólafsson fékk, eftir ríflega 600.000 króna launahækkun milli ára, um 2,5 milljónir króna á mánuði í laun fyrir bæjarstjórn Kópavogs árið 2017, eða tæpar 30 milljónir á ári.
Þessi árslaun jafngilda um eða yfir 285.000 Bandaríkjadölum. Borgarstjóri San Francisco borgar nýtur ívið hærri launa, eða $365.000 á ári, en allir aðrir borgarstjórar sem ratað hafa á listann eru annars með lægri laun en Ármann: borgarstjóri Vínarborgar, Tókýó, London, Los Angeles, Houston, Helskini, Chicago, Stokkhólms, Oslóar.

Slagorð Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi fyrir komandi kosningar er „Það er snjallt að búa í Kópavogi“.
Snjallt að vera bæjarstjóri í Kópavogi
Jafnvel Bill de Blasio, borgarstjóri New York borgar fær aðeins $229.000 á ári fyrir störf sín, eða 520.000 krónum lægri mánaðarlaun en Ármann. Jafnvel fyrir launahækkunina naut Ármann með öðrum orðum hærri launa en borgarstjóri borgarinnar sem aldrei sefur, en eftir hana eru laun Ármanns miklu hærri. Þannig virðist nokkuð snjallt að vera bæjarstjóri í Kópavogi, snjallara jafnvel en að vera borgarstjóri stórborgar.
Íbúar Kópavogs eru 36.000 talsins. Í New York borg búa 8½ milljón manns, eða um 240-falt fleiri. Líklega væri þó heldur ómálefnalegt að reikna launamun bæjarstjórans og borgarstjórans miðað við höfðatölu.
Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar í ár nemur um 26 milljörðum króna eða 240 milljónum dollara. Fjárhagsætlun New York-borgar nemur 89 milljörðum dala, eða á við 370 Kópavogsbæi.
Sjálfsagt er listi Wikipediu ekki tæmandi og hugsanlegt að þar ættu bæjarstjórar fleiri íslenskra sveitarfélaga heima, meðal borgarstjóra stærstu borga heims.