Hagsmunagæsla gagnvart ESB
Íslensk stjórnvöld vilja ekki evrópskan skít
og leitast eftir undanþágu frá orkunýtni
Ríkisstjórnin hefur lagt fram drög að lista yfir forgangsmál við hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu á þessu ári. Listinn er tekinn saman í samræmi við tillögur stýrihóps um hvernig best yrði að hagsmunagæslu Íslands gagnvart sambandinu staðið, þar sem lagt var til að ríkisstjórnin tæki saman slík forgangsmál árlega.
Efst á lista forgangsmála í núverandi drögum eru viðbrögð Íslands við nýrri reglugerð ESB um áburð: fyrri reglugerð gilti aðeins um ólífrænan áburð en sú nýja einnig um lífrænan. Segir í greinargerð að talið sé að „ákveðnir smitberar geti borist með áburðinum, sem ekki hafa áhrif á lífríki á meginlandi Evrópu en gætu haft mjög skaðleg áhrif á vistkerfið á Íslandi vegna landfræðilegrar stöðu og einangrunar landsins hvað þessa þætti varðar“. Vekja þurfi athygli á sérstöðu Íslands að því leyti og áhrifum af óheftum innflutningi lífræns áburðar.
Undanþága um orkunýtni, „sérstakar lausnir“ í loftslagsmálum
Í orkumálum er unnið að grundvallarendurskoðun löggjafar Evrópusambandsins. Í krafti útbreiðslu umhverfisvænna orkugjafa á Íslandi hefur Ísland fengið undanþágu frá kröfum um orkunýtni og orkunýtni byggingu hingað til og „stefnir að því að svo verði áfram.
Þá segir í lið um loftslagsmál að Ísland hafi „að mörgu leyti sérstöðu“ í þeim. Meðal annars séu miklir möguleikar á landinu á kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu. Því verði athugað hvort „óska þarf eftir sérstökum lausnum fyrir Ísland“ til uppfyllingar Parísarsamkomulagsins.
Að reglur um flutninga verði ekki íþyngjandi
Ríkisstjórnin ætlar sér að bregðast við nýjum tillögum ESB í sambandi við flutninga á vegum, sem ætlað er að bæta félagsmálalöggjöf á sviðinu. Tilskipanir um grunnþjálfun, reglubundna þjálfun og vottorð um starfshæfni ökumanna eru til endurskoðunar, ásamt reglugerð um skilyrði þess að mega starfa sem flutningsaðili á vegum. Hér er afstaða Íslands sú, samkvæmt drögunum, að mikilvægt sé að í reglunum „felist ekki íþyngjandi ákvæði umfram það sem nauðsynlegt er fyrir innri markaðinn“.
Betri reglur
Önnur mál á forgangslistanum snúa að samgöngumálum, innri markaði, samkeppnisrétti, stafrænum innri markaði, fjármálastarfsemi, rannsóknum, nýsköpun, menntun og menningu, „betri reglum“, lyfjamálum, vinnumarkaði, almannatryggingum og jafnréttismálum. Á flestum þessum sviðum leggur Ísland ekki fram skýr markmið eða áherslur aðrar en þær að fylgjast náið með þróun innan sambandsins og leggja sitt af mörkum.