Leikurinn gerði Hannes einn eftirsóttasta markvörð heims
Hannes vs. Messi
En hvers vegna höldum við ekki bolta?
Náði að kaupa treyjur klukkan 12:44 og rétt slapp við að vera hálshoggin af spenntum fótboltabullum af yngstu kynslóðinni. Hvítar treyjur eins og liðið okkar skartar í leiknum á móti Argentínu. Á fyrstu 18 mínútum leiksins var töluverð spenna í loftinu enda fyrsti leikurinn á rússneskri grundu.
Mér fannst á fyrstu mínútum leiksins Argentínumenn leggjast full oft á bakið með væl, óttalegir mömmustrákar þessir suðrænu hnokkar. Messi reyndar glæsilegur með víkingaskegg en furðulega rýra olnboga. Síðan skoraði Argentína sitt fyrsta mark og Hannes í rauðu var ómótstæðilegur þar sem hann kollsteyptist í vörninni.
22:56 jöfnuðu Íslendingar – Alfreð okkar með þrumuskot og Gummi Ben stundi: Hvílíkur gæi!
Síðan gerðist ekkert heillengi nema fallegt að horfa á liðin svört og hvít, salt og pipar, Ebony og Ivory, Ying og Yang dansa á vellinum. Skrýtið að markmaður Argentínu klæðist fangabúning eins og glæpakvendin í Orange Is The New Black.
30:50 tæklaði dómarinn Aron okkar og hann haltraði smá og öll þjóðin fann til með honum. Megi dómarinn fá iðrakveisu og verða að saltstólpa.
Það er ótrúlegt hvað Messi sleppur auðveldlega aftur og aftur, þrátt fyrir reglubrot og boltakáf í hornspyrnu. Messi er skeggjuð súkkulaðikleina sem fær endalausa sénsa hjá dómaranum en það var augljóst að í hálfleik var hann orðinn drullustressaður enda full ástæða til.
Hálfleikur 1:1. Hvert þó í heitasta helvíti?!
47:26 Hornspyrna aðalsmerki Argentínumanna lengst yfir markið.
Ragnar renndi sér á bossanum og kom í veg fyrir að boltinn færi í markið. Svokölluð bossavörn.
Jóhann fór af velli og Rúrik kom inn, það var mál manna að Argentíski þjálfarinn ætti við verulega geðbresti að stríða. Messi tók vítaspyrnu og Hannes eins og elding varði eins og klettabelti. Ótrúlegt Messi-feis.
Aukaspyrna sem rennsveittur Messi messaði upp feitt, skaut yfir markið eins og fífl og Hannes bara enchillaði í markinu.
Aftur reyndu Argentínumenn að koma boltanum í markið en Hannes greip tuðruna í fang sér eins og leikskólakrakka með hornös.
Ég fann til með Messi því að í þessum leik töpuðu dagar lífs hans lit sínum. Royal Mess. ‘Hönd Guðs’ Maradonna geispaði og veifaði með vindil í ‘hönd Guðs’.
75:19 Aron í pásu og Ari Skúlason kom inn á.
87:21 Greip Hannes boltann eins og flugu á leið í súpu.
Aukaspyrna á lokamínútunum og Hannes varði! Nema hvað!
Hannes varð í þessum leik að öllum líkindum einhver dýrasti og eftirsóttasti markmaður heims. Vandi íslenska liðsins er að við höldum ekki bolta, hvað er málið? Á Hannes bara að vinna alla vinnuna einn? Einn maður og 39.000 sokkapör?