Umfjöllun um sumarleysi Reykjavíkur í The Guardian:
Reykjavík greiðir með votviðri fyrir sólskinið í Bretlandi
—veðurkerfi landanna nátengdari en nokkur önnur
Votviðrið, skýþyngslin og kuldinn sem flestir íbúar Íslands hafa mátt gera sér að góðu það sem af er sumars þykir nú saga til næsta bæjar: um liðna helgi birti breska dagblaðið The Guardian umfjöllun um tíðarfarið í Reykjavík og setur í samhengi við góðviðri á Bretlandseyjum.
Í greininni er haft eftir Trausta Jónssyni, veðurfræðingi, að íbúar Reykjavíkur „greiði nú gjaldið fyrir sólskinið í Englandi og suðurhluta Skandinavíu“, þar sem háþrýstingur yfir Vestur-Evrópu hafi áhrif á svokallaða vindröst eða háloftavinda og þrýsti skýjum norður álfuna.
Hermt er að veðurkerfi Íslands og Bretlands séu tengdari en veðurkerfi nokkurra annarra tveggja landa: af landfræðilegum sökum liggi vindröstin nær alltaf ýmist yfir Íslandi eða Bretlandi. Vindröstin sé meginorsök hitabylgja. Því sé oft á tíðum ýmist sól og sumar á Bretlandi eða á Íslandi en sjaldnar á báðum stöðum í senn.