100 ára afmæli konungsríkisins Íslands
Fullveldishátíðin sem snerist um danskan embættismann
Þrír þingmenn af sjö beindu máli sínu til Kjærsgaard
Hátíðardagskrá miðvikudagsins, í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis þessa lands og aðskilnað frá dönsku nýlenduherrunum, snerist, og snýst nú enn, að mestu leyti um einn einasta danskan embættismann, þingforsetann og rasistann Piu Kjærsgaard.
Þingflokkur Pírata sniðgekk hátíðarþingfundinn á miðvikudag. Þingmenn Samfylkingar og einhverjir úr liði Vinstri grænna mættu en báru barmmerki í mótmælaskyni. Forsetahjónunum leið sýnilega heldur óþægilega á sviðinu, við hlið danska þingforsetans. Þingmenn virtust allir heldur grettnir á svip, en ef til vill skrifast það aðeins á veðrið og andleysi samkomunnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, stóð upp og yfirgaf hátíðarsvæðið þegar Pia Kjærsgaard tók til máls. Forseti Alþingis hefur nú varið tveimur, þremur sólarhringum í að verja þá ákvörðun sína að bjóða móðurfígúru danskra rasista eins konar fjallkonuhlutverk við viðburðinn, og nú síðast að ávíta þá þingmenn sem þykir það athugavert. Ekki sér fyrir endann á því, nú þegar einn þingmanna Pírata hefur lagt fram formlega fyrirspurn um aðdraganda þeirrar ákvörðunar þingforseta að heiðra Kjærsgaard með þessum hætti.
Þrír þingmannanna sjö sem voru á mælendaskrá á hátíðarfundinum beindu loks máli sínu sérstaklega til Kjærsgaard, svöruðu með einhverjum hætti þeirri óbeit á aðkomufólki sem hún grundvallar starf sitt á.
Katrín: Eigum að fagna fjölbreytni
Katrín Jakobsdóttir minntist í ræðu sinni á mikilvægi og auðlegð fjölbreytileikans. Í því samhengi minntist hún sérstaklega á baráttuna gegn hatursorðræðu:
Þjóðin er sömuleiðis orðin töluvert fjölbreyttari en árið 1918 því að samfélag okkar er lifandi og það er síbreytilegt. Við eigum að fagna þeirri mikilvægu fjölbreytni sem gerir þjóðina ríkari og tryggja að við öll sem hér búum saman höfum hvert um sig sterka rödd í samfélagi okkar, óháð uppruna, óháð trúarbrögðum. Við eigum aldrei að leyfa hatursorðræðu að verða lögmæt í okkar samfélagi.
Logi: Getum ekki litið undan
Logi Einarsson ávarpaði Kjærsgaard beint á dönsku, eða skandinavísku, til að brýna að rangt væri að líta undan þegar milljónir manna leggja á flótta undan vá:
En við þurfum líka að gangast við ábyrgð okkar sem manneskjur og muna hvaðan við komum. Það er of stutt síðan Íslendingar gátu ekki brauðfætt börnin sín og flúðu þúsundum saman vestur um haf í leit að betra lífi til að við getum nú litið undan, þegar milljónir manna eru á flótta undan fátækt, stríði og loftslagsógnum.
— Jeg bør sige det på skandinavisk også. Jeg minder om at en af vores vigtigste opgaver er at vise kærlighed og medfølelse og hjælpe vores medbrødre over hele verden som nu flygter fattighed og krig uafhængig af religion eller hudfarve.
Þorgerður: Höfnum tollmúrum og rasisma
Þá minntist Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir einnig á baráttuna gegn rasisma í sinni ræðu:
Líkt og það var gæfa okkar Íslendinga að eiga forvígismenn í sjálfstæðisbaráttunni sem skildu mikilvægi þess að Ísland yrði ekki utan gátta heldur þátttakandi í þeim straumhvörfum sem þá voru að gerjast í Evrópu er brýnna en fyrr, þrátt fyrir það, að við höldum vöku okkar í dag.
Þess vegna þurfum við að hafna einangrunarhyggju, tollmúrum, haftastefnu og rasisma. Við verðum að vera óhrædd að tala áfram fyrir lýðræði, fyrir fjölbreytni, fyrir jafnrétti og fyrir frelsi. Þannig nærum við fullveldið okkar og styrkjum grundvöll þess, landi og þjóð til heilla. Til hamingju með daginn.