Afmælisráðstefna ADHD samtakanna 18. og 19. október
Sálfræðiþjónusta á að vera hluti af hinu opinbera heilbrigðiskerfi
„Allt sem þú ekki vissir um ADHD og konur, systkini …“
Ellen Calmon framkvæmdastjóri og Elín H. Hinriksdóttir formaður ADHD samtakanna skrifa:
Rannsóknir hafa sýnt að samþætt sálfræði- og lyfjameðferð skila mestum árangri þegar unnið er með einkenni ADHD, sem er taugaþroskaröskun í heila.
Sálfræðiþjónusta er í dag undanskilin almennri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Vaxandi fjöldi fólks er með geðraskanir eða greinist með önnur andleg veikindi en aðgengi að þjónustu fyrir þennan hóp er takmarkað og kostnaður vegna hennar mörgum ofviða. Þetta hefur margvíslegar afleiðingar fyrir einstaklinginn og samfélagið allt.
Sálfræðiþjónusta á að falla undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands og verða þannig veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta.
Þegar átt er við um sálfræðiþjónustu þá er bæði átt við þá þjónustu sem fer oft fram í greiningarferlinu sjálfu en ekki síst eftir að greining liggur fyrir. Mikilvægt er að veita fólki sem greinist með ADHD fjölbreyttan stuðning og meðferð eftir greiningu. Eftirfylgni er gríðarlega mikilvæg þannig að einstaklingarnir eigi auðveldara með að byggja sig upp og vinna með styrkleika sína. Margir hverjir hafa lent út af sporinu og þurfa eftirfylgni og stuðning við að ná aftur tökum á lífinu.
30 ára afmæli ADHD samtakanna
ADHD samtökin fagna 30 ára afmæli á þessu ári og munu að því tilefni blása til veglegrar ráðstefnu á Grand hóteli dagana 18. og 19. október. Þar verður meðal annars fjallað um mikilvægi sálfræðiþjónustu vegna ADHD og eftirfylgni að greiningu lokinni.
Erik Pedersen er einn fjölmargra sérfræðinga sem mun vera með erindi á afmælisráðstefnunni sem ber yfirskriftina „Allt sem þú ekki vissir um ADHD og konur, systkini …“
Erik Pedersen geðlæknir starfar sem yfirlæknir ADHD teymis á sjúkrahúsinu í Herning í Danmörku. Teymið meðhöndlar einstaklinga 18 ára og eldri sem glíma við alvarleg einkenni ADHD röskunarinnar. Teymið samanstendur af geðlæknum, sálfræðingum og hjúkrunarfræðingum sem veita einstaklingsmeðferð ásamt þéttri eftirfylgd og stuðningi. Erik mun fjalla tekur sérstaklega fyrir ADHD út frá sjónarhóli kvenna en ADHD klíníkin fær fjöldan allan af tilvísunum varðandi konur sem glíma við kvíða og persónuleikaraskanir. ADHD teymið í Herning hefur starfað við góðan orðstýr í 10 ár í umhverfi sem telur rétt yfir 300.000 íbúa.
Skráning á ráðstefnuna fer fram á adhd.is og er afsláttur veittur til þeirra sem skrá sig fyrir 6. október. Boðið verður upp á munnlega túlkun í rauntíma frá ensku yfir á íslensku og öfugt.