Leikritið Rejúníon fjallar um fæðingarþunglyndi
Að upplifa algjört tengslaleysi við fólkið í kringum sig
Viðtal við Sóleyju Ómarsdóttur, leikskáld og hagfræðing
Sóley Ómarsdóttir er höfundur leikritsins Rejúníon, sem sagt er fyrsta íslenska leikverkið sem varpar ljósi á fæðingarþunglyndi. Leikfélagið Lakehouse setur leikritið á svið í Tjarnarbíói, og eru Sólveig Guðmundsdóttir og Sara Martí Guðmundsdóttir í aðalhlutverkum.
Rejúníon er fyrsta leikrit Sóleyjar skrifar, sem segist hafa verið með það í maganum í 4 ár. Með verkinu segist leikhópurinn vilja efna til þjóðarvakningar og opna umræðuna um fæðingarþunglyndi, sem hafi verið hamlandi og þrifist í einangrun. Því verði efnt til málþings í Tjarnarbíói þann 3. nóvember, með höfundinum, ásamt Sæunni Kjartansdóttur, sálgreini, og Atla Bollasyni, föður.
Í aðdraganda þess að verkið ratar nú á fjalirnar tók Harpa Fönn Sigurjónsdóttir viðtal við höfundinn.
Þá myndast einhver þörf til að takast á við fortíðina
Hvernig kom það til að þú byrjaðir að skrifa þetta verk?
Ég hafði einhverja óljósa hugmynd um að skrifa verk um konur sem voru á einhvern hátt aftengdar og einangraðar. Ég var mikið að velta fyrir mér hvað fælist í alvöru tengingu við aðra manneskju og hvernig fólk bregst við þegar það upplifir algjört tengslaleysi við fólkið í kringum sig. Kveikjan hefur líklega verið sú tilfinning sem ég upplifði þegar ég flutti ólétt heim til Íslands, eftir að hafa verið nokkur ár erlendis. Ég fór þá að vinna í fjarvinnu þannig ég var ein heima allan daginn og mér fannst ég svo úr tengslum við lífið hérna heima, þar á meðal vinkonur mínar sem höfðu allar auðvitað haldið meira sambandi við hvor aðra, svo og manninn minn sem fór bara strax í sína vinnu og rútínu þegar við komum heim. Ég datt mjög fljótt í þunglyndi, sem mögulega mætti kalla meðgönguþunglyndi, því ég hafði líka yfirþyrmandi áhyggjur af því hvernig ég myndi standa mig sem móðir. Ég var eiginlega alveg viss um að ég gæti það engan veginn enda var ég á þeim stað að ég átti mjög erfitt að koma mér fram úr rúminu og það var afrek að komast í sturtu.
Ég byrjaði hins vegar ekki að skrifa þetta verk fyrr en löngu seinna þegar ég var ólétt af mínu öðru barni. Eins og oft þegar konur eru óléttar þá myndast einhver þörf til að takast á við fortíðina, eins og maður vilji gera hreint fyrir sínum dyrum áður en barnið fæðist. Og þá fór ég að pæla meira í því hvernig mér leið á fyrri meðgöngu því mér leið mun betur á þeirri seinni, enda var ég þá líka að vinna úti og alltaf í samskiptum við fólk.
Verkið fór svo fljótt að snúast aðallega um eina persónu en hennar tengslaleysi er aðallega við barnið sitt. Þegar verkið hefst er barnið að verða þriggja ára og aðalpersónan að glíma við eftirköst fæðingarþunglyndis sem hún leitaði sér aldrei hjálpar við.
Oft mikill feluleikur með vanlíðan
Er þörf á frekari umræðu um fæðingarþunglyndi?
Já klárlega, það er ennþá tabú umræðuefni. Þegar ég var að skrifa verkið komst ég að því þegar ég talaði við konur í kringum mig að langflestar höfðu upplifað erfiðar tilfinningar í kringum barneignir. Ég held að umræðan um fæðingarþunglyndi sé líka eins erfið og raun ber vitni vegna þess að fólk skammast sín fyrir að líða illa í aðstæðum sem samfélagið segir að því eigi að líða vel eða jafnvel dásamlega í. Ég held að flestum þyki nýfædd börn yndisleg en það er ekkert sjálfgefið að líða vel, ein heima með ungabarni allan daginn.
Svo er annað, að í alvarlegustu tilvikum fæðingarþunglyndis langar fólki jafnvel að meiða börnin sín, þannig það fylgir þessu mjög neikvæður stimpill og mögulega þess vegna eiga sumir erfitt með að viðurkenna fæðingarþunglyndi. Ég held, eða vona allavega, að í flestum alvarlegum tilfellum fái fólk þá hjálp sem það þarf í kerfinu, en hin tilfellin, sem eru kannski ekki jafnalvarleg, fara oft framhjá kerfinu. Það er t.d. ekki skimað fyrir fæðingarþunglyndi fyrr en börn er níu vikna gömul og þá er konum kannski búið að líða hræðilega illa í rúma tvo mánuði. Mér finnst það bara allt of langt því þetta er svo mikilvægur tími. Einnig held ég að það sé ekki nóg að framkvæma könnun á blaði í þessum skimunum þar sem það er auðvelt að haga svörunum eins og maður vill. Ég held að það væri betra að taka viðtal við konurnar og fá þær til að tala aðeins. Það er oft mikill feluleikur með vanlíðan en það er erfiðara að fela hvernig manni líður í samtali.
Og svo má auðvitað fara að tala líka meira við feður og kanna þeirra líðan. Þeir geta líka upplifað fæðingartengt þunglyndi en það er voðalega lítið rætt um það.
Oft líður manni frekar eins og rannsóknarlögreglumanni en skáldi
Hvernig kom ykkar samstarf til?
Ég fór á vinnustofu hjá Árna Kristjánssyni í september 2014 í Tjarnarbíói. Í vinnustofunni vann hann með höfundum sem voru með verk í vinnslu og ég var þá að vinna að kvikmyndahandriti. Svo var afraksturinn leiklesinn í Tjarnarbíó í janúar 2015. Árni fór svo erlendis í mastersnám í leikstjórn við Bristol Old Vic, en veturinn eftir þá vorum við saman með leikritunarátak í Tjarnarbíói sem hét „Haltu kjafti og skrifaðu leikrit“. Þá var ég búin að skrifa nokkrar senur í þessu verki og hann bauðst til að lesa yfir og gefa mér nótur. Svo einhverju seinna fæ ég símtal þar sem hann segir að hann og konan hans, Harpa Fönn Sigurjónsdóttir sem er framkvæmdarstýra verksins, langi að setja verkið upp.
Hvernig var svo ferlið að skrifa verkið?
Þegar ég fékk símtalið var verkið ennþá á byrjunarstigi og því tók við tímabil þar sem ég skilaði inn nýjum senum nánast vikulega og Rejúníon fór að taka á sig mynd. Við höfum kastað þessu fram og til baka í um það bil eitt og hálft ár núna, og verkið hefur tekið miklum breytingum. Oft hef ég verið föst í einhverjum flækjum sem ég hef ekki náð að leysa úr fyrr en eftir langan tíma og oft með góðri hjálp frá bæði Hörpu og Árna, og fleirum sem hafa lesið yfir og gefið nótur. Oft líður manni frekar eins og rannsóknarlögreglumanni en skáldi því mér líður eins og ég þurfi að uppgötva söguna, ekki búa hana til. Svo þegar ég finn eitthvað brot sem vantaði þá fæ ég svona „aha“ móment þar sem mér finnst ég skilja verkið aðeins betur. Þetta getur oft tekið langan tíma og ég held að sögur í mótun þurfi að malla einhverstaðar í bakheilanum, ég gæti ekki sest niður og hugsað stíft um flækjuna og hún myndi bara leysast. Þá er hætt við að útkoman yrði þvinguð en ekki organísk.
Ferlið var í rauninni mun erfiðara og lengra en ég bjóst við. Oft hélt ég að við værum að nálgast endamarkið en svo var alltaf eitthvað sem átti eftir að tækla. Og endirinn var líka lengi að koma. Ég var eiginlega komin í mikla krísu með endinn því mig langaði að svara öllum spurningum og binda alla lausa enda, en svo small allt saman þegar ég fór að skoða aftur hvað ég lagði upp með í byrjun, því ég hafði ákveðinn endi í huga þá, og svo hvað skiptir mestu máli að svara í þessu verki. Ég hefði alveg getað haldið áfram og nánast skrifað ævisögu þessa fólks, en það hefði ekki þjónað verkinu.
Svo er líka rosalega skemmtilegt ferli núna að fylgjast með æfingunum, sérstaklega fyrir mig sem höfund því ég er að heyra þennan texta, sem ég er búin að liggja yfir í marga mánuði, vakna til lífsins. Þá heyri ég líka hvað virkar vel og hvað virkar ekki. Þetta er allt mjög mikið lærdómsferli.
Hagfræðin er, eins og leikrit, rannsókn á mannlegri hegðun
Lærðir þú leikritun eða hvernig kom það til að þú fórst að skrifa leikrit?
Nei, ég er reyndar lærður hagfræðingur en hef verið að skrifa, aðallega leikrit, síðustu sex árin. Hagfræðin er heimur sem er auðvitað mjög langt frá leikhúsinu en bæði er þetta samt stúdía á mannlegri hegðun. Ég hef mestan áhuga á þeirri grein hagfræðinnar sem kallast atferlishagfræði, sem er kannski meira skylt sálfræði eða félagssálfræði, og leikritun í mínum huga tengist því, þar sem leikrit er í raun og veru rannsókn á mannlegri hegðun.
Hvernig er að skrifa verk um svona persónulegt og viðkvæmt málefni?
Ég var eiginlega mjög lengi í afneitun með að þetta verk væri eitthvað sérstaklega persónulegt. En svo hægt og rólega hef ég þurft að horfast í augu við það að ég er að vinna úr minni eigin reynslu. Kannski fannst mér það líka flókið því ég leitaði mér aldrei hjálpar og því var aldrei nein greining. En þetta er samt ekki sjálfsævisögulegt verk, alls ekki. Það var bara þessi tilfinning tengslaleysis og einangrunar sem var upphafspunkturinn og svo þróast verkið og öðlast sjálfstætt líf.
Málefnið er viðkvæmt en ég hugsaði lítið út í það á meðan ég skrifaði verkið. Sennilega var það mjög jákvætt enda hefði annað haft hamlandi áhrif. Ég vona innilega að við særum engann með verkinu. Þetta er frekar til þess gert að opna á umræðu sem okkur þykir þörf, því vanlíðan tengd barneignum er svo ótrúlega algeng. Samt gerum við sem samfélag nánast kröfu um að þetta tímabil sé sveipað einhverjum töfraljóma.