Rauða kross-verslun í Hafnarfirði sögð mismuna kúnnum:
Sjálfboðaliði „vildi frekar að Íslendingar geti keypt merkjafötin“
Fulltrúa verslunarinnar verulega brugðið | Upplýsingafulltrúi segir málið tekið alvarlega
Kona nokkur hafði samband við Kvennablaðið og deildi frásögn af ferð sinni í verslun Rauða krossins við Strandgötu í Hafnarfirði. Hún kýs að láta ekki nafns síns getið að svo stöddu. Hún segir starfsmann verslunarinnar hafa tjáð sér að í aðalverslunarrýminu sé aðeins að finna þau lakari föt sem versluninni berast, en sýnilega dýrari fötum, merkjavöru og slíku, sé haldið frá, þau séu geymd bakatil. Þangað sagðist starfsmaðurinn aðeins hleypa Íslendingum en ekki erlendum kúnnum og skjólstæðingum Rauða krossins. Þá virðist starfsmaðurinn hafa tjáð töluverða fordóma í garð útlendinga samskiptum við konuna, og meðal annars sagt flóttamenn þjófótta, að því er virðist til að rökstyðja þetta fyrirkomulag.
Fulltrúi verslunarinnar segir þetta af og frá, og er nánar greint frá viðbragði hennar að neðan. Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi, segir að málið verði tekið föstum tökum, enda gangi framkoma sem þessi í berhögg við grundvallarhugsjónir Rauða krossins.
Saga úr búð
„Ég fór í Rauða kross-búðina á Strandgötu í Hafnarfirði og var að skoða í búðinni. Þá kemur starfsmaður, sjálboðaliði, til mín og spyr hvort ég sé að leita að fötum á mig. Ég játa því. Hún svarar að öll merkjaföt séu á bakvið búðarborðið. Eftir smá spjall segist hún ekki vilja selja þessi fínu, dýru föt fólki sem er með Rauða kross-gjafakort, eins og til dæmis flóttamönnum sem fá ókeypis Rauða kross-kort. Fólki væri ekki treystandi og þau væru svo miklir þjófar þessir útlendingar. Síðan sagði hún mér að sumir fái að koma bakvið og skoða merkjafötin.
Hún talaði um hvað þessir flóttamenn væru miklir þjófar, svo hún vildi ekki setja öll fötin fram í búðina. Hún vildi frekar að Íslendingar geti keypt merkjafötin. Og bætti við að útlendingar kaupí föt fyrir Rauða kross-kortið þannig að það kæmu engir peningar í kassann.
Ég gef öll föt í Rauða krossinn sem er hjálparstarf og allir eiga að vera jafnir. Fordómar eiga ekki heima í þessu starfi. Það er til skammar að starfsmaður í Rauða krossinum skuli mismuna fólki og tala svona. Ég var hreinlega orðlaus og fór móðguð út. Þetta lá þungt á mér restina af deginum. Ég hef aldrei skammast mín eins mikið fyrir að vera Íslendingur. Ég skrifa þetta í von um að úr verði bætt í þessu mikilvæga hjálparstarfi.“
„Ljót framkoma ef þetta er satt“
Kvennablaðið ræddi við fulltrúa verslunarinnar við Strandgötu og spurðist fyrir um málið, að betri fötum væri haldið frá útlendingum sem kæmu í verslunina.
„Nei, haldið frá útlendingum? Haldið frá hælisleitendum og flóttamönnum? Nei.“
Þá spurðum við hvort rétt væri að sýnilega dýrari föt og merkjavara væru ekki aðgengileg þeim sem væru með Rauða kross-kort.
„Jújú, þeir eru með Rauða kross-kort, þeir fá yfirleitt 10.000 krónur og ef við erum með hangandi kannski föt sem kosta það í búðinni þá er þeim sjálfsagt að fá það. Minnsta mál. Það er allt opið öllum hérna. Þetta er einhver misskilningur.“
Fulltrúa verslunarinnar var heyrilega brugðið við að heyra af tali sjálfboðaliðans, og lagði þunga áherslu á að ekki væri mismunað gegn flóttafólki eða hælisleitendum í versluninni, sem væri ekki síst rekin fyrir þá hópa:
„90% af fólkinu sem kemur í þessa búð eru hælisleitendur og flóttamenn. Það er stanslaus traffík af flóttamönnum og við myndum ekki gera neitt annað en vera að fela fyrir þeim einhverja merkjavöru. Það er hræðilegt að heyra þetta.“
Aukinheldur væri í versluninni enga merkjavöru að finna, að heitið geti, í mesta lagi Nike og Adidas, einstaka 66°N flík.
„Það eru allir hælisleitendur og flóttamenn brosandi hér inni. Það er vel tekið á móti þeim. Og vonandi öllu fólki. En þetta er ljót framkoma af sjálfboðaliða ef þetta er satt.“
Allt fyrir alla, „hvort sem er hælisleitendur eða borgandi fólk“
Þegar blaðamaður gekk á fulltrúa verslunarinnar um hvort engin sérrými væri að finna baka til, þar sem fólk hafi misjafnan aðgang kannaðist hún þó við að svo gæti verið. Á bakvið verslunarrýmið sé eins svæði þar sem nýjar sendingar berast og tekið er upp úr kössum.
„Við tökum upp úr kössunum og hengjum það upp bakvið. Svo tökum við út mánaðargömul föt úr búðinni og setjum hitt fram, það sem kom nýtt. Á meðan það hangir þarna bakvið hleypum við ekki neinum inn að skoða það.“
Þó bætti hún við:
„Það er svona einn og einn kannski sem fer inn óvart, eða einn og einn sem er boðið að fara og kíkja en það er yfirleitt ekki neinum hleypt þarna á bakvið.“
Fulltrúi verslunarinnar kannaðist ekki við að þeir sem fengju að „fara og kíkja“ væru frekar Íslendingar en útlendingar, og sagði það raunar af og frá. Þegar blamamaður spurði við hvað væri miðað hverjum boðið að fara að kíkja, svaraði hún:
„Það er kannski bara ef einhver er að leita að barnafötum og finnur ekkert hér frammi í búðinni, þá segir maður kannski heyrðu, ég var að taka upp barnaföt í gær, hér er kassi, viltu kíkja á hann? En við erum ekki að halda flóttamönnum og hælisleitendum frá fötunum. Guð minn góður, við erum frekar að láta þá fá þau. Það er ekkert hérna á bakvið sem er ekki ætlast til að fólk fái hérna, hvort sem er hælisleitendur eða borgandi fólk.“
Verður tekið mjög föstum tökum
Eftir stendur óstaðfest frásögn heimildamanns Kvennablaðsins. Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, segist ekki hafa heyrt af máli sem þessu áður, engar kvartanir af þessum toga hafi borist á hennar borð, og málið sé mjög leiðinlegt ef satt reynist:
„Svona eiga sjálfboðaliðar okkar ekki að tala og ég lít þetta mjög alvarlegum augum. Þetta er bara ekki í lagi. Svo sannarlega eiga allir að vera jafnir hjá Rauða krossinum og fá þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda. Þetta verður tekið mjög föstum tökum, ég get sagt þér það.“