„Eins og hann láti sig falla og treysti á að áhorfendur taki við honum“
Valur Freyr er frábær!
Jakob S. Jónsson um Allt sem er frábært í Borgarleikhúsinu
Það ætti að vera óþarfi að kynna breska leikskáldið Duncan Macmillan fyrir íslenskum leikhúsgestum; allnokkur verka hans hafa ratað á leiksvið höfuðborgarinnar – Andaðu, 1984 og nú síðast Fólk, staðir, hlutir. Hann er lipurt leikskáld, það er gott flæði í sögum hans og sýningar á verkum hans mega teljast áhorfendavænar, hæfileg blanda af gamni og alvöru og í það minnsta þau tvö verk hans sem sýnd hafa verið nú síðast í Borgarleikhúsinu – Fólk, staðir, hlutir og Allt sem er frábært – hafa það til að bera að áhorfandinn fer úr leikhúsinu með þá tilfinningu að hafa upplifað eitthvað sem máli skiptir, sem sjálfsagt er að taka til sín, ræða við vinnufélagana í kaffitímum og vinina. Duncan Macmillan talar til nútímamannsins og tekur hlýlega um öxlina á honum um leið og hann lyftir hulunni af einhverju nútímavandamáli eins og áfengisfíkn eða þunglyndi.
Þunglyndi er málið í Allt sem er frábært. Valyr Freyr segir sögu sína og rekur hana frá því að hann er barn og uppgötvar að það er eitthvað ekki í lagi á heimilinu, þungamiðja vandans er móðirin sem á við slík vandamál að stríða að það reynist ofvaxið drengnum að skilja, en hann tekst á við vandann með því að skrifa lista yfir allt sem er frábært og það reynist vera ansi margt sem er einmitt það – frábært. Listann færir hann síðan móðurinni, sem veit þó ekki hvernig hún á að bregðast við honum; en listinn fylgir drengnum gegnum táningsárin og alla leið upp í fullorðinsárin. Listinn um allt, sem er frábært er meginstef verksins og um leið það sem fleytir karakter verksins til ásættanlegs lífs.

„Áður en áhorfandinn veit hvaðan á sig stendur veðrið er hann orðinn hluti af frásögninni og fer ekki aðeins eftir hnitmiðuðum fyrirmælum Vals Freys, heldur bætir í, glæða lífi, vekur viðbrögð og tilfinningar.“
Það fer ekki hjá því að það er fólginn átakanlegur harmur í því að þurfa að fara í gegnum lífið og stöðugt minna sig á allt það sem er frábært – til að forða sér frá því að sökkva ofan í allt það, sem ekki er það. Móðir, sem er ófær um að takast á við hlutverk sitt sakir þunglyndis, faðir sem er ófær um að takast á við hlutverk sitt sakir sambandsleysis við eigin tilfinningar. Bitnar á engum nema barninu og það er hlutverk sögumannsins, barnsins, Vals Freys að koma því til skila.
Og það gerir Valur Freyr/sögumaðurinn/barnið á þann hátt að vart verður betur gert. Áður en sýning hefst deilir Valur Freyr út miðum sem á stendur eitthvað af því sem er frábært – ís með dýfu, að lesa bók, þegar sólin skín – og á gefnu stikkorði á áhorfandinn að segja upphátt það sem á miðanum stendur. Við útdeilingu miðanna skapast eftirvænting í salnum og létt stemning enda býður Valur Freyr af sér góðan þokka, og þessi eftirvænting helst inn í sýninguna. En hlut áhorfenda er ekki þar með lokið – Allt sem er frábært er öðrum þræði „þátttökuleikhús“, þ.e. áhorfendur lesa stundum af miðunum en stundum fá þeir hlutverk í sögunni og reynir þá bæði á hæfni þeirra til að leika af fingrum fram en ekki síður og jafnvel meira á hæfni Vals Freys að leiða þá á rétta braut, svo ekkert fari nú forgörðum í sögunni. Það er kúnst að fá áhorfendur til að framkvæma þá athöfn sem krafist er og á þann hátt sem hæfir og þar nýtur snilld Vals Freys sín til fulls. Áður en áhorfandinn veit hvaðan á sig stendur veðrið er hann orðinn hluti af frásögninni og fer ekki aðeins eftir hnitmiðuðum fyrirmælum Vals Freys, heldur bætir í, glæða lífi, vekur viðbrögð og tilfinningar.
Leiktextafræðilega er þetta ákaflega skemmtilega unnnið: leiksýningin verður ekki bara rammi utan um söguna, sem Valur Freyr segir, hún er myndgerfing hennar og bætir við skilninginn. Áhorfendur gangast sögunni á hönd líkt og þeir verði fyrir „félagslegu smiti“ – þetta hugtak skiptir meginmáli í sýningunni og það er engu upp ljóstrað, þótt sagt sé að meðalið gegn félagslegu smiti eru miðar með öllu því sem er frábært. En það er drengurinn/sögumaðurinn/Valur Freyr sem hefur miðana í höndum sér og hann sleppir ekki takinu á þeim fyrr en í lokin. Enda eins gott – Valur Freyr flytur verkið án nokkurs öryggisnets – það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að hugsa sér hvað farið gæti úrskeiðis í samskiptum hans og áhorfenda – en hann er svo fjári öruggur, hefur aðstæður allar, sýninguna og söguna svo á valdi sínu að hættan á því er í raun víðsfjarri. Það er eins og hann láti sig falla og treysti á að áhorfendur taki við honum – og það gera þeir líka! Valur Freyr er einfaldlega frábær!
Allt sem er frábært er þýtt og staðfært af Kristínu Eiríksdóttur, sem hér vinnur gott og vandað verk. Staðfæringin tekst með ágætum og hnykkir á því að sagan á sér ekki eingöngu stað í huga leikarans og í leikhúsinu með áhorfendum, heldur einnig og ekki síður í samfélaginu. Í öllu var vel vandað til og sýningunni gefin sú látlausa umgjörð sem hæfir efninu: leikmynd og búningar Brynju Björnsdóttur, lýsing Þórðar Orra Péturssonar og hljóð Baldvins Þórs Magnússonar þjónar vel sögunni og augljóst að leikstjórinn Ólafur Egill Egilsson hefur einsett sér að þessi saga skyldi ná til áhorfandans af eigin krafti, studd meðulum leikhússins – og hér rennur enda allt saman í eina fallega órofa heild: söguefnið, sagan, leikarinn, áhorfandinn, leikhúsið – og allt vísar út til samfélagsins – og þar er verk að vinna! Eða á tilveran ekki að vera – einfaldlega frábær?
Borgarleikhúsið: Allt sem er frábært | Höfundar: Duncan Macmillan ásamt Jonny Donahoe | Þýðing og staðfæring: Kristín Eiríksdóttir | Aðlögun og frekari staðfæring: Ólafur Egill Egilsson og Valur Freyr Einarsson | Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson | Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir | Lýsing: Þórður Orri Pétursson | Hljóð: Baldvin Þór Magnússon | Leikari: Valur Freyr Einarsson