„Ljóðið er ódrepandi.“
Eitt vetrarsvartholið enn
Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:
Ísak Harðarson (f. 1956) yrkir af krafti í nýrri ljóðabók sem hann nefnir því óvenjulega nafni Ellefti snertur af yfirsýn. Bókin er sú ellefta í röð ljóðabóka hans frá 1982 og titillinn tengist ljóðlínu um fjall sem hann verður að ganga á til að fá snert af yfirsýn á hrun heimsins og bankakerfisins og volgar rústir siðmenningarinnar. Ísak er eitt af þekktustu skáldum landsins. Kraftmikil og myndræn ljóð hans búa yfir mótþróa, kaldhæðni og heitri trú. Ljóðabók hans, Rennur upp um nótt (2009), var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2011 en síðan hefur hann ekki ort en þýtt þeim mun meira. Nýja bókin er því langþráð.
Þótt lesandi sé í upphafi varaður við því að orð og slitur myndi ekki neina samfellu, drætti eða mynstur, er heildarsvipur á ljóðabókinni. Meginþemað er andúð á efnishyggju, græðgi og offorsi og heimsendir er nær en maður hefði haldið.
Það er dómsdagsstemning hvert sem litið er. Allt er hrunið, kurlað í mask, engin hús, engin bók, engin merking en guð er nálægur þótt hann sé hvergi að sjá. Og lítill strákur steinhissa sem fæddist á Allraveraldarvegi er orðinn Grafarvogsbúi. Jörðin, Úfinkolla Sunnudóttir, er á hverfanda hveli og feigðin vofir yfir.
Allt er ögrandi við ljóðabók Ísaks: Orðaleikir, ádeila, textauppsetning, textaspeglun, titill, mynd á bókarkápu og letrið, comic sans, sem ýfir viðkvæmar taugar allra sem telja sig til fagurkera. En glæsileg eru ljóðin:
Í seinni hluta bókarinnar er mildari tónn, rústirnar hafa kólnað og við leitum að einhverju heilu til að nýta; stefnu, áttavita eða ljóði. Skáldið hefur ort sig frá hruni og merkingarleysi til nýs upphafs. Kafli sem ber heitið Töfranorður er umlukinn birtu, dýrð og hamingju: „Og ég sé / að eilífðin bíður okkar – í nákvæmlega hæfilegri fjarlægð – með heitt á brúsanum“ (50). Lokaljóð bókarinnar er ástarljóð til deildar 33A á Landspítalanum, fullt af ást, þakklæti og von.
Ljóðið er ódrepandi. Það kemur okkur í gegnum eitt vetrarsvartholið enn.
Ellefti snertur af yfirsýn
JPV, 2018
55 bls