„Þar var lofað allskonar fíneríi, mentor og mindfulness“
Fleiri dóu en fengu starf við innleiðingu starfsgetumats í Danmörku
Á fimm árum hafa 2% fengið vinnu
Kvennablaðinu hafa borist frásagnir frá innleiðingu starfsgetumats í Danmörku, sem eru vægast sagt sláandi. Við munum fjalla um reynslu Danmerkur af kerfinu á næstu dögum. Heimildamaður blaðsins vill ekki láta nafns síns getið og verður hér nefnd Anna.
Anna skrifar: „Fyrir það fyrsta þá fylgdist ég með því hvernig þetta var kynnt hérna í DK í upphafi. Sem eitthvað gott fyrir veika og fatlaða. Hvernig samfélagið myndi bjóða þennan hóp velkominn aftur inn í samfélagið. Gott væri fyrir alla að tilheyra samfélagi og vera með. Það var þingmaður sem heitir Mette Frederiksen sem kynnti þetta frumvarp og hún á mikla möguleika á að vera æðsti ráðherra í kosningum á næsta ári.“ Anna segist hafa séð Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, „lepja nákvæmlega upp það sem Mette Frederiksen sagði á sínum tíma.“
Í Danmörku var búið til „svona millistig“ segir Anna, „sem var ekki til áður. Þeir sem áður fengu örorku eru núna settir í eitthvað sem heitir ressourceforløb“. Hugtakið mætti þýða sem mannauðsefling og er hugsað eða kynnt sem eins konar þjálfunarferli. „Þar var lofað allskonar fíneríi, mentor og mindfulness sem myndi færa hin veika nær vinnumarkaðnum,“ skrifar Anna en bætir síðan við: „Fleiri eru dánir í þeim hóp en þeir sem hafa færst nær vinnumarkaðnum.“
Anna vísar til fréttar vefmiðilsins Nordjyske frá árinu 2015, þar sem þetta kemur fram. Fréttin er byggð á rannsókn Álaborgarháskóla sama ár, sem leiddi í ljós að aðeins 31 þeirra sem þá höfðu frá innleiðingu mannauðseflingar árið 2013 verið færðir af örorkubótum í nýja millistigið, höfðu í kjölfarið fengið vinnu. 35 höfðu aftur á móti látið lífið.
Árið 2018 er staðan sú að alls 130 manns, eða 2 prósent af þeim 4.408 sem leidd hafa verið gegnum mannauðseflingu í Danmörku, hafa í kjölfarið verið ráðin til starfa. Ekki hefur tekist að fá uppfærð gögn um þróun dánartíðni í hópnum.