Dómstóll hnekkti banni borgarstjóra við fasistagöngu í Varsjá:
Búist við yfir 100.000 fasistum til göngu í Varsjá á sunnudag
Lögreglan verður „í verkfalli“ þann dag, herinn sinnir því gæslu
Á fimmtudag tilkynnti Hanna Gronkiewicz-Waltz, borgarstjóri Varsjár í Póllandi, að fyrirhuguð ganga þjóðernissinna í borginni næstkomandi sunnudag væri bönnuð og yrði ekki haldin. Síðar sama dag úrskurðaði dómstóll í borginni gegn banninu og mun gangan, að óbreyttu, fara fram. Hóparnir sem að henni standa úrskurði dómstólsins sem sigri.
Á sama degi í fyrra, þann 11. nóvember 2017, héldu sömu hópar göngu í Varsjá. Fréttir og myndir frá þeirri samkomu vöktu óhug víða um heim. 60.000 manns tóku þátt í því sem varð blysför undir merkjum harðrar þjóðernishyggju, að meðtöldum opinskáum rasisma, útlendingahatri og áróðri gegn innflytjendum. Meðal áberandi hópa í göngunni voru samtök sem nefna sig Róttæku þjóðernisfylkinguna (Obóz Narodowo-Radykalny eða ONR), í höfuðið á fasískri hreyfingu í landinu á 4. áratug síðustu aldar. ONR-liðar eru fasistar.
100 ára sjálfstæðisafmæli Póllands
Dagurinn, 11. nóvember, er sjálfstæðisdagur Póllands, og er þá fagnað stofnun sjálfstæðs pólsks ríkis þar sem áður var rússneskt, þýskt og austurrískt yfirráðasvæði. Þetta var, líkt og fullveldið sem íslensk stjórnvöld minnast og fagna um þessar mundir, í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar, árið 1918. Í ár markar dagurinn því 100 ára afmæli sjálfstæðis Póllands. Vegna umfangs viðburðarins hefur verið búist við hvar sem er á bilinu 100.000 til 250.000 þátttakenda í göngunni í þetta sinn,.
Þegar borgarstjóri Varsjár tilkynnti að fyrirhuguð samkoma fasista og þjóðernissinna á sunnudag yrði bönnuð sagði hún að svona ætti ekki að minnast 100 ára afmæli sjálfstæðisins og að Varsjá hafi „þjáðst nóg undir herskárri þjóðernishyggju“.
Hún sagði öryggismál einnig hafa verið áhyggjuefni. Ef rétt er eftir haft virðist hún hafa orðað það varlega: stór hluti lögreglunnar hefur boðað verkfallsaðgerð sama dag og verður ekki á vakt. Eftir að banninu var hnekkt tilkynntu yfirvöld að herinn yrði því sendur til gæslu í Varsjá, í stað lögreglu.
Íhald, öfga-hægri, fasismi
Flokknum Lög og réttlæti (Prawo i Sprawiedliwosc eða PiS), sem leiðir ríkisstjórn Póllands, mætti lýsa sem öfga-hægriflokki, vegna afstöðu hans til innflytjenda og fleiri mála, en vegna harðrar samkeppni frá opinskáum fasískum hreyfingum gerist líklega þarft að skerpa greinarmun hinna fínni blæbrigða styggðarinnar. Að kalla hann íhaldsflokk er að draga úr, en kannski fer betur á því hér og nú: Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands á vegum PiS, lýsti því yfir í kjölfar tilkynningar borgarstjórans, að hann myndi standa að annarri göngu í stað hinnar bönnuðu, sem færi þó sömu leið og fyrirhugað var að bannaða gangan færi. Ekki er ljóst hvort verði af þeirri ríkisstjórnargöngu, nú þegar banninu hefur verið hnekkt, eða hvort nokkur greinarmunur hefði í reynd verið á þeim tveimur.