BNA sögð miðla málum við Tyrki til að Kúrdar geti einbeitt sér að ISIS
Enn berjast Kúrdar við ISIS —og enn ráðast Tyrkir á Kúrda
Illa vopnuð ungmenni með saltlausn í stað sjúkrahúss berjast fyrir hönd NATO
Kúrdískar sveitir eru nú sagðar vera að hefja árásarhrinu til að leysa síðustu blettina í Sýrlandi undan valdi ISIS. Frá þessu greinir CNN á þriðjudag, og gefur til kynna að Kúrdar muni njóta stuðnings Bandaríkjanna í þeim átökum.
Á sama tíma hefur tyrkneski herinn hafið að nýju hernað gegn Kúrdum í Norður-Sýrlandi, eins og kemur meðal annars fram í frétt The Independent þann 2. nóvember.
Þá lýsti Erdogan, forseti Tyrklands, því nýverið yfir að yfirvofandi væri árásarhrina til að „tortíma hryðjuverkaveldinu austan árinnar Efrat“ og átti ekki við ISIS heldur kúrdísku sveitirnar YPG og YPJ, sem taka enn á sig alla lífshættu fyrir hönd Vesturlanda á svæðinu.
„Rimman“ milli Kúrda og Tyrklands
Staðan er jafn beygluð og fyrr. Í frétt CNN er áréttað, enn og aftur, að hinar kúrdísku bardagasveitir YPG og YPJ séu helstu samherjar Bandaríkjanna í baráttunni gegn ISIS, en lokabardagarnir hafi tafist vegna langdreginnar „rimmu“ milli kúrdísku sveitanna og Tyrklands, ef það er nothæf þýðing á contentious stand-off. Sú útbreidda hugmynd að völd ISIS hafi verið upprætt sé ótímabær – liðsmenn samtakanna hafi verið hraktir út í horn, svo að segja, en samtökin séu enn til staðar og haldi völdum á blettum hér og þar.
Í frétt CNN er einnig tíunduð sú staðreynd að Tyrkland er aðili að hernaðarbandalaginu NATO, en skilgreini sveitir Kúrda, helstu samherja Bandaríkjanna í Sýrlandi, sem hryðjuverkasamtök. Bandaríkin eru sögð hafa lagt sig fram um að liðka fyrir viðræðum milli stjórnvalda í Tyrklandi og forystu Kúrda til að draga úr spennu, að minnsta kosti að því marki að kúrdísku sveitirnar geti einbeitt sér að upprætingu ISIS.
Hugsanlega má gera ráð fyrir að þetta þýði að Bandaríkin og bandamenn þeirra muni á næstunni veita Kúrdum liðsinni sitt, þá sennilega með lofthernaði, að minnsta kosti í átökunum við ISIS í austurhluta Sýrlands. Slíkt liðsinni veittu þau ekki gegn Tyrkjum í Afrin fyrr á þessu ári.
Ungmenni með saltlausn í stað sjúkrahúss
Í Sýrlandi berjast YPJ og YPG-sveitirnar við hlið sýrlenskra sveita innan bandalagsins SDF, Syrian Defence Forces. Ljósmyndari að nafni Chaim er í umfjöllun CNN sagður hafa ferðast við hlið SDF síðustu mánuði. CNN hefur eftir ljósmyndaranum að það hafi vakið furðu hans hvað sveitirnar, „sem leiða hér alþjóðlega mikilvæg átök“, eru skipaðar ungu fólki og illa vopnum búnar. Gert sé að sárum, hvort sem er af völdum skotvopna eða sprengjuárása, með saltlausn og klútum. Bandaríkin, og raunar Vesturlönd öll, virðast þannig enn reiða sig á að illa vopnaðir, og áreiðanlega misvel þjálfaðir ungir sjálfboðaliðar, taki á sig alla áhættu og mannfall í þágu baráttu sem ríkisstjórnir og þjóðarleiðtogar hreykja sér af. Það á einnig við um Ísland, en í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis, sem hann skilaði í apríl, segir: „Ísland á hlutdeild að fjölþjóðabandalagi sem vinnur að því að uppræta ISIL“. Sú hugmynd að Ísland eigi hlutdeild í þessari baráttu, er eina atriðið sem nefnt er í kafla 5.1.6: Samstarf gegn hryðjuverkastarfsemi.
Í Sýrlandi barðist Haukur Hilmarsson í sveitum alþjóðlegra sjálfboðaliða við hlið kúrdísku sveitanna, innan raða SDF. Hermt er að Haukur hafi tekið þátt í orrustunni um Raqqa, sem var ígildi höfuðborgar ISIS þegar yfirráðasvæði þeirra var stærst. Eftir að SDF-liðar náðu borginni úr höndum ISIS var víðast hvar litið svo á að sigur væri hérumbil í höfn.
Uppræta ISIS í smábæjum og eyðimörkinni
Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur nú geisað frá því í mars 2011, eða vel á áttunda ár. Átök hafa staðið yfir nýverið, og segir í umfjöllun CNN að bardagar hafi verið harðir, þó að tiltölulega lítið hafi borið á þeim í fréttum. Aðgerðir SDF hafa síðustu mánuði, að því er fram kemur í fréttinni, beinst að því að binda enda á yfirráð ISIS í smábæjum og óvistlegum blettum í eyðimörkinni kringum landamæri Sýrlands að Írak. Þessar aðgerðir eru sagðar hafa gengið hægar og bardagar verið harðari en búist var við.
Þann 28. október eru sveitir ISIS sagðar hafa nýtt sér sandstorm til gagnárása, og fellt tugi úr liði SDF. Í fréttamiðlinum The National, sem starfræktur er innan Sameinuðu arabísku furstadæmanna, segir að ISIS hafi þá helgi fellt 12 úr liði SDF. Það hafi verið í bardaga í bænum Hajin, í grennd við landamærin að Írak. ISIS-liðar hafi brotið varnir SDF-liða á bak aftur í árás sem hófst með bílsprengju.
Í sömu frétt kemur fram að þessi árás hafi átt sér stað daginn eftir að loftárásir á austurhluta Sýrlands, undir forystu Bandaríkjanna, hafi orðið að minnsta kosti 14 óbreyttum borgurum að bana, ásamt 9 ISIS-liðum.
Á þessari slóð er reynt að halda viðburðum styrjaldarinnar til haga, líka þegar athygli fjölmiðla beinist annað.