Húsnæðismál fjalla um grundvallarréttindi almennings, áréttar Margrét Blöndal:
„Staða leigjenda alltaf upp á náð og miskunn leigusalans komin“
Formaður Samtaka leigjenda um fyrsta skref í átt að heilbrigðum leigumarkaði
Margrét Blöndal, formaður Samtaka leigjenda, skrifar:
Láglaunafólk, öryrkjar, ungt fólk á námslánum og eftirlaunafólk fær svo lág laun og lífeyri að vart er hægt að lifa af þeim. Þetta fólk leigir flest húsnæði á hinum „frjálsa“ húsnæðismarkaði þar sem það borgar himinháa húsaleigu og vinnur margfalda vinnu til að ná endum saman. Leiguverð hefur rokið upp úr öllu valdi undanfarin ár. Réttindi leigjenda gagnvart leigusala eru afar takmörkuð og staða leigjenda aldrei verri en nú í því endurtekna græðgissamfélagi sem Íslendingum hefur tekist að skapa hér eftir hrun.
Veruleiki flestra leigjenda er orðinn sá að hver mánaðarmót eru láglaunafólki kvíðvænleg, því þegar búið er að borga leiguna er nánast ekkert eftir til að lifa af út mánuðinn – Við leigjendur þurfum þó eins og aðrir að borga mat, samgöngur, síma, rafmagn, hita og skuldir.
Veruleiki margra leigjenda er sá að húsaleigan getur hækkað umtalsvert fyrirvaralaust, jafnvel um tugi þúsunda á einu bretti án þess að leigjendur hafi nokkuð um það að segja, og ef ekki er hægt að borga leiguna er þeim sagt upp húsnæðinu.
Veruleiki margra leigjenda er sá að þeir þurfa í mörgum tilfellum að flytjast ótt og títt á milli hverfa með tilheyrandi rótleysi og óöryggi fyrir börn og fullorðna vegna þess að þeim var sagt upp húsnæðinu.
Réttindi leigjenda eru oft og tíðum fyrir borð borin og staða þeirra alltaf upp á náð og miskunn leigusalans komin.
Hér eru sannarlega framin mannréttindabrot í skjóli laga sem þarf að breyta hér og nú. Hér ríkir nefnilega algert kapítalískt siðleysi í þessum efnum.
Leigjendur eru fólk, af holdi og blóði, bæði börn og fullorðnir, einstaklingar og fjölskyldur og afleiðingar þessa veruleika eru samfélaginu mjög alvarlegar og dýrar.
Í hruninu misstu til að mynda níu þúsund fjölskyldur heimili sín á nauðungaruppboði. Komu þar þá vappandi að, fjárfestingafélög sem stofnuðu svo leigufélög sem keyptu þúsundir íbúða á slikk. Íbúðir þeirra sem fólk hafði misst og fóru á nauðungarsölur. Níu þúsund heimili. Níu þúsund fjölskyldur. Það má gera því skóna að þær fjölskyldur hafi þá þegar lent á leigumarkaði og afar líklegt að í mörgum tilfellum séu nú, þær sömu fjölskyldur sem voru bornar út á götu í hruninu, að leigja íbúðirnar af leigufélögunum sem fengu íbúðir þeirra á gjafverði.
Þessi leigufélög hafa með þessum gjörningum sínum þrýst leiguverðinu upp í hæstu hæðir. Ferðamannaiðnaðurinn og AirBnB hafa líka haft áhrif en umfram allt er það sú siðlausa gróðahyggja sem er umborin og hlúð er að af ríkisvaldinu og hinum „frjálsa“ markaði sem réttlættur er eins og hann sé skapaður af Guði almáttugum.
Lagt hefur verið til að sett verði leiguþak á leiguverð húsnæðis sem fyrsta skref í áttina að bættu heilbrigði á leigumarkaði. Ég ítreka, sem fyrsta skref.
Það þýðir að böndum verði komið á leiguverð, lög verði sett til að koma í veg fyrir stjórnlausar hækkanir á leiguverði og viðurlög sett við broti á þeim. Auðvitað leggst þetta illa í hagsmunaaðila stóru leigufélaganna því þeim hugnast yfirleitt ekki afskipti ríkisvaldsins ef þau eru þeim ekki í hag. Hins vegar verða þau hin sömu að átta sig á því að húsnæði er ekki hægt að umgangast sem vörutegund.
Heilbrigði á leigumarkaði felst ekki í því að halda uppi fjárfestum eða áhuga þeirra á því að græða á borgurunum sem eiga skýlausan rétt á að búa í sómasamlegu húsnæði heldur felst það í því að eftirlit sé öflugt og reglur skýrar um það að ekki sé hægt að rýja leigjendur inn að skinni vegna húsnæðiskostnaðar eða af því að „markaðurinn“ kallar á það og að eftirlit og strangar reglur gildi um það hvenær hækka megi leiguverð og fyrir því þurfi að liggja skynsamleg rök, sum sé, gagnger endurskoðun á leigusamningum og eins og áður hefur komið fram, kerfinu okkar öllu í heild. Í samvinnu við leigjendur.
Það er einkennilegt að ítreka skuli þörfina á mikilvægi þess að lagalegum skyldum ríkis og sveitarfélaga sé fylgt eftir, þeim skyldum þeirra, að tryggja íbúum sínum öruggt húsnæði. Öruggt húsnæði.
Húsnæði fólks er nefnilega ekki söluvara sem réttmætt er að leigja hæstbjóðanda eins og sumir virðast halda heldur er heimili grundvallarréttur hverrar manneskju, og ætti alls ekki að fela í sér þá pínu og lífsgæðaskerðingu að fyrirvinna heimilisins verji helmingi eða tveimur þriðju tekna sinna í leigu hvað þá meira eins og dæmi eru um. Staðreyndin er sú að við þurfum öll að geta lifað á tekjum okkar. Líka við sem leigjum.
Yfirvöldum ber samkvæmt lögum að sinna skyldum sínum um húsnæðismál, þar á meðal byggingu verkamannabústaða, byggingu leiguíbúða sveitarfélaga og útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis svo vitnað sé beint í þann verkefnalista sem sveitarfélögin hafa lögbundna skyldu til að sinna. Húsnæðisskortur hefur verið margnefndur sem ein helsta ástæða húsnæðivanda. Ekki ætti að þurfa að hafa áhyggjur af að dragi nokkuð úr nýjum framkvæmdum á vegum ríkis og sveitarfélaga þegar þau fara að sinna þessum skyldum sínum því þau hafa til þess besta yfirsýn og háþróað eftirlit með hver húsnæðisþörf er í borg og bæ.
Húsnæðismál eru ekki viðfangsefni sem koma aðeins fjármálastofnunum, framkvæmdaraðila eða stjórnum sveitarfélaga við. Húsnæðismál fjalla um grundvallarréttindi almennings. Þetta virðist þvælast fyrir þeim sem hafa aðhyllst þá gegndarlausu gróðahyggju sem tröllriðið hefur vestrænum samfélögum undanfarna áratugi en nú er mál að linni.