Notagildi þjóðaröryggisstefnu:
„Þetta er bara fullorðinsumræða fullvalda ríkis“
—Samtal um fullveldi og þjóðaröryggi í Hörpu um helgina
Hernaðarútgjöld íslenska ríkisins hafa tvöfaldast á þremur árum, viðvera herliðs í landinu hefur ekki verið meiri um árabil, þátttaka sérsveitar Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar í fjölþjóðlegum heræfingum eykst ár frá ári – í stuttu máli fara hernaðarumsvif vaxandi á Íslandi og virðist óhætt að tala um yfirstandandi vígvæðingu.
Herforingjar undir hliðvörðum
Á sama tíma erum við illa í stakk búin að ræða þessi mál. Í fyrsta lagi vegna þess að tungumálið býr ekki að þeim orðaforða sem þarf. Eins og Michael T. Corgan, bandarískur sérfræðingur í tengslamyndun smáríkisins, skrifaði í upphafi aldarinnar koma upp vandamál „jafnvel þegar nýtt orð bætist við hernaðarorðaforðann en sem Íslendingar kannast ekki við“. Hann nefnir til dæmis að á íslensku séu til orð yfir ólíkar tignarstöður innan bandarískra herstofnana:
„en þau eru ekki hluti af virkum orðaforða flestra Íslendinga, jafnvel ekki þeirra sem starfa með hernum“. Þetta er á meðan enn var herstöð á Reykjanesi. „Þessi framandleiki getur valdið vandræðum þegar Íslendingar reyna að skilja þýðingu og vægi yfirlýsinga sem berast frá ólíkum embættismönnum í hinu víðfeðma skrifræði Bandaríkjahers.“
Þýðingavandi af þessu toga var víst nokkuð algengur á meðan herstöðin var og hét. Þekkt er til dæmis saga af bandarískum hermanni sem var grunaður um ofbeldisverk í miðborg Reykjavíkur. Þegar íslenskir lögreglumenn skiluðu honum upp á völl létu þeir hliðvörð skrifa undir yfirlýsingu um að maðurinn yrði framseldur til íslenskra dómstóla þegar þar að kæmi – grunlausir um að herforingjar líta ekki á undirskriftir óbreyttra hliðvarða sem bindandi fyrir herinn.
Með er hið nýja á móti
Önnur ástæða þess að við erum illa í stakk búin til að ræða virka þátttöku lýðveldisins í yfirstandandi hernaðaruppbyggingu er hin mótsagnakennda, blátt áfram furðulega, afstaða núverandi stjórnarflokka til sviðsins: Sjálfstæðisflokkur er í stystu máli hlynntur vígvæðingu, Vinstri-græn mótfallin. Þau virðast hafa komist að þeirri málamiðlun að Sjálfstæðisflokkurinn geri það sem hann vill á meðan hann hefur ekki hátt um það, en Vinstri-græn fái á meðan að segja það sem þau vilja svo lengi sem orðin hafa engin áhrif á athafnir stjórnarinnar.
Þar kemur títtnefnd þjóðaröryggisstefna öllum aðilum málsins til bjargar. Stefnan var afgreidd sem þingsályktun á 145. þingi, 13. apríl 2016. Dagsetningin skiptir máli því þetta er viku eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hraktist úr embætti forsætisráðherra, Sigurður Ingi er nýtekinn við, allt í volli, í stuttu máli, og athygli fólks bundin við aflandseyjar. Málið fór með öðrum orðum sennilega framhjá mörgum. 42 þingmenn sögðu já við stefnunni, Vinstri-græn voru sátu ýmist hjá eða voru fjarverandi, fleiri vantaði í þingsal en enginn greiddi atkvæði gegn henni.
Þetta plagg rann semsagt einhvern veginn gegnum þingið á meðan landsmenn horfðu flestir annað, en stendur eftir sem fjarvistarsönnun hernaðarandstæðinga í ríkisstjórn: við viljum auðvitað ekki að Ísland taki þátt í þessu rugli, segja þau um heræfingarnar, fjárveitingarnar, kafbátaeftirlitið og allt hitt – en þjóðaröryggisstefnan bindur hendur okkar.
Öll mál eru nú öryggismál
Á meðan það er rétt, svo langt sem það nær, megininntak skjalsins er að Ísland skuli vera í NATO, varnarsamningurinn við Bandaríkin standi og að kjarnavopn á vegum NATO-ríkja megi fara um íslenska landhelgi, þá er það ekki eina notagildi þessa skjals: þetta eru aðeins þrír liðir af ellefu. Hinir átta eru í stuttu máli alls konar blaður um hitt og þetta: stuðla skuli að netöryggi, fjármála- og efnahagsöryggi, fæðu- og matvælaöryggi, taka mið af ógnum vegna loftslagsbreytinga, náttúruhamfara og svo framvegis.
Í krafti þessa, að endurskilgreina matarforða landsins, símasamband og sjálft veðrið sem öryggismál, geta þeir hernaðarandstæðingar og hernaðarsinnar sem nú eru í einni sæng talað og talað án þess að orð þeirra rekist nokkurn tíma á. Með orðum eins harðasta hernaðarandstæðings Vinstri grænna á þingi, Steinunnar Þóru Árnadóttur, er mikilvægt:
„að við ræðum um öryggis- og varnarmálin sem og þjóðaröryggisstefnu hér í þessum þingsal. Mér hefur oft þótt slík umræða hverfast um of um veruna í NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin. Þess vegna er ég mjög ánægð með að heyra þá tóna sem heyrast í þessari umræðu þar sem aðrar — jafnvel stærri, að því er ég álít — ógnir sem að okkur steðja eru nefndar á nafn. Þær eru raunar nefndar í þjóðaröryggisstefnu okkar en það eru allt atriði sem geta tengst loftslagsbreytingunum, svo sem hættan sem fylgir ýmiss konar náttúrufarsbreytingum eða náttúruvá og matvælaöryggi, sem getur verið stefnt í hættu með loftslagsbreytingum.“
Á þessum nótum fór í byrjun nóvember fram sérstök umræða Alþingis um öryggis- og varnarmál, án þess að nokkurs ágreinings yrði vart milli hernaðarsinna og hernaðarandstæðinga. Fyrsta hlutverk þjóðaröryggisstefnunnar er að forða yfirlýstum hernaðarandstæðingum frá því að taka ábyrgð á þátttöku sinni í vígvæðingu. Annað hlutverk hennar er að auðvelda þeim til muna að tala framhjá vígvæðingunni, í ótal liðum.
Fullorðinsumræða fullvalda ríkis
Þess vegna er ekki óvænt hvað vantaði á dagskrá málþings sem haldið var í Hörpu um liðna helgi, undir yfirskriftinni „Samtal um fullveldi og þjóðaröryggi“. Að málþinginu stóðu Háskólinn, Forsætisráðuneytið og fleiri lykilstofnanir. Fram komu forsetar fyrr og nú, fræðimenn og stjórnmálamenn. Í opnunarávarpi sínu tæpti forsætisráðherra á ofangreindum lykileiginleikum þjóðaröryggisstefnunnar:
„Í þeirri þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi samþykkti skapaðist breið samstaða um nýtt öryggishugtak, útvíkkun öryggishugtaksins, þó að vissulega sé enn pólitískur skoðanaágreiningur milli okkar, sem teljum að Ísland skuli standa utan hernaðarbandalaga, og hinna sem líta á þau sem mikilvægan þátt í alþjóðasamstarfi Íslands. Markmið stefnunnar er að tryggja sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæranna, öryggi borgaranna, og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins. Og það er svo að þrátt fyrir pólitískan ágreining þá hlýtur það að vera skoðun allra stjórnmálamanna að ein af frumskyldum hvers samfélags sé að tryggja öryggi borgaranna.“
Þannig erum við, í krafti þjóðaröryggisstefnunnar, loks öll, í megindráttum, sammála. Við vorum ekki alltaf sammála. Á þriðja og síðasta pallborði málþingsins talaði Kristrún Heimisdóttir um hrunið sem þjóðaröryggisógn. Hún sagði þjóðaröryggisráð vera „eitt af því sem vantaði 2008“. Þá vorum við enn ekki öll sammála. Framfaraskrefin sem síðan hafa verið tekin blasi við:
„Hér er ekki verið með einhvert pólitískt skens eða innihaldslausa frasa um að þetta sé bara tal um hernaðarbrölt eða eitthvað slíkt. Þetta er bara fullorðinsumræða fullvalda ríkis sem verður að hafa sýn á sitt öryggi.“
Formaður Utanríkismálanefndar sagði Ísland eiga að vera öflugan málsvara frjálsra viðskipta í heiminum. Og prófessor við Listaháskólann átti forvitnilegt erindi um táknmyndir fullveldisins. En pólitískt skens og innihaldslausa frasa vantaði. Með öðrum orðum tal um hernað. Það vantaði alveg. Fulltrúa Varnarmálaskrifstofu vantaði. Fulltrúa Utanríkisráðuneytisins vantaði. Og fulltrúar hernaðarandstæðinga, þá virðist loks vanta fyrir fullt og allt.
Þannig nýtist þjóðaröryggisstefnan okkur til að tala út og suður án þess að kjarni málsins trufli neinn að ráði. Og unir þannig hver sáttur við sitt.