Eftirmálar kvöldsins á Klaustri:
Gunnar Bragi skýrir hvers vegna hann tekur „leyfi“ en Sigmundur Davíð ekki
„Þetta snýst bara um heildarmyndina“
Eins og fram kemur í umritun Kvennablaðsins á hljóðupptökum Klausturfundarins alræmda lítur Gunnar Bragi á það sem hlutverk sitt í stjórnmálum að falla á sverðið fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, annars vegar, og heildarhagsmuni þeirra sem hugsa eins og þeir tveir hins vegar.
Nú þegar tilkynnt hefur verið að Gunnar Bragi og Bergþór Ólason taki sér „hlé“ frá störfum, vegna málsins, en Sigmundur Davíð ekki, skýrir Gunnar Bragi þá ákvörðun best sjálfur:
„Þetta getur Sigmundur staðfest á eftir, ég sagði við þennan mann fyrir kosningarnar: Sigmundur, ég kaus þig ekki, en ég er tilbúinn að víkja úr fyrsta sætinu til að þú getir komist örugglega á þing. Af því ég veit að það er eitthvað þarna á bakvið þig sem þarf að komast á þing. Það stendur enn, sko. Ég hef ekki þann metnað, skilurðu, ég hef ekki þann metnað, að ef það þarf að koma öðru fólki en mér á þing, þá gerum við það bara. Ef það eru einhverjir aðrir en ég sem þurfa að vera þingflokksformenn eða – what the fokk! – þá gerum við það.“
Ef þetta er ekki nógu skýrt eða afdráttarlaust bætir Gunnar við:
„Eins og ég segi, sko, ég er sáttur í pólitík. Ég segi bara, ef það er þannig að við getum stutt þessar hugsjónir sem … þá bara gerum við það. Það er enginn fyrir. Ég myndi víkja fyrir öllum hérna í þingflokksformanninn til dæmis. Ég myndi stíga niður fyrir hvern sem er, sem oddviti hvaða kjördæmis sem er, ef ég veit að hugsjónirnar sem Miðflokkurinn er með, aka, þeir sem hugsa eins, þú veist, þeir sem hugsa eins, skilurðu – þetta snýst bara um heildarmyndina.“