Bára „Marvin“ Halldórsdóttir stígur fram:
„Á maður að trúa því að þetta hafi verið algert undantekningartilvik?“
—Stolt af að vera „litla þúfan sem velti þessu þunga hlassi“
„Á maður að trúa því að þetta hafi verið algert undantekningartilvik? Að venjulega tali þau ekki svona? Að stefnan þeirra og pólitíkin þeirra sé ótengd þessum viðhorfum sem birtust þarna á barnum?“
Að þessu spyr Bára Halldórsdóttir í viðtali sem birtist í Stundinni í dag, en Bára stígur þar fram sem „Marvin“, persónan að baki upptökunum af samtali sex þingmanna á barnum Klaustur þann 20. nóvember síðastliðinn. Líkt og nefnt hefur verið í umfjöllun Kvennablaðsins fór því fjarri, samkvæmt frásögn Báru, að samtal þingmannanna á barnum hafi verið einkasamtal:
„Við vorum stödd í opnu rými, á stað sem er opinn almenningi, og þau töluðu svo hátt að það heyrðist um allt og meira að segja yfir í hitt rýmið á barnum. …Þeir tala um þetta sem einkasamtal. Ég vildi óska þess að þetta hefði verið einkasamtal, en ég sat undir þessu og satt best að segja trúði ég ekki mínum eigin skilningarvitum, mér brá svo. Mér fannst ég ekki geta annað en haldið áfram að taka samtalið upp.“
Birtingarmynd firringar
Bára er fötluð hinsegin kona. Í viðtalinu við Stundina fjallar hún um reynslu sína af örorku á Íslandi. Um viðfangsefnið hefur hún áður skrifað nokkurn fjölda greina sem birst hafa í Kvennablaðinu, allt frá árinu 2015. „Það eru tvær þjóðir í þessu landi,“ segir Bára í viðtalinu nú:
„Þjóðin sem rétt skrimtir, fólkið sem neyðist til að vera eins konar felubetlarar – og svo hinir: fólkið sem hefur það gott eða mjög gott og nær ekki endilega að tengja sig almennilega niður á við og horfast í augu við hvað fyrrnefndi hópurinn hefur það slæmt. Sumt af því sem ég heyrði á Klaustri var mjög skýr birtingarmynd þessarar firringar.“
Bára segist ánægð með hversu alvarlega fólk hafi tekið málið eftir að fréttir tóku að berast af tali þingmannanna:
„Ég er eiginlega stolt af því að vera litla þúfan sem velti þessu þunga hlassi og setti þessa atburðarás af stað. En ég gerði ekki meira en það, það er samfélagið allt sem á heiðurinn.“
Ritstjórn Kvennablaðsins leyfir sér einnig að vera stolt af samstarfi miðilsins við Báru „Marvin“ Halldórsdóttur, fyrr og nú.