Gagnrýni á þátt um gagnrýni
Opið bréf til útvarpsstjóra og Kiljustjóra
Kristín Helga Gunnarsdóttir skrifar
Heilir og sælir.
Erindi þessa bréfs er að gera athugasemd við umfjöllun barna- og fjölskyldubóka í Kiljunni. Umfjöllun er auðvitað ekki rétta orðið heldur einhverskonar handfjötlun. Sú aðferð er vandræðaleg og hefur svo sem ekkert með bókmenntalega umfjöllun að gera. Það bætir engu við þessi annars góðu verk að handfjatla þau með þeim hætti sem gert er skömmu fyrir jól, og gert var á liðnu miðvikudagskvöldi.
Bók er gripin, handfjötluð og kastað á borð, höfundar ekki getið, umsögnin með hraði: Þessi bók eina ferðina enn. Það er til fólk sem bíður eftir því. Og svo er næsta bók gripin og henni kastað til. Álitsgjafanum er sniðinn minnsti stakkur í menningarsögu RÚV. Henni er gert að afgreiða af lipurð og fagmennsku heila undirstöðubókmenntagrein á sekúndum. Það er í raun með ólíkindum hvað henni þó tekst að gera við þessar aðstæður og í sjálfu sér væri spennandi að gera álitsgjafanum þetta enn erfiðara með því að fá hana til að standa á einum fæti og flauta um leið.
Jæja, en auðvitað erum við leið, við sem skrifum fyrir allt þetta fólk sem þarf og verður að lesa bækur til að lifa framtíðina af og svo framtíðin lifi af. Svo mikilvægt er hlutverk okkar. Og við sjáum löng og drottningarleg viðtöl við okkar yndislegu ungskáld með sín langfyrstu verk. Og það er gengið lengi eftir strönd eða stræti, starað út á haf eða yfir húsþök og spekúlerað í ástinni og lífinu. Fagurleg umfjöllun um fagurt fyrsta fagurbókmenntaverk.
Um leið og við gleðjumst yfir því og fögnum framhaldslífi bókarinnar þá finnum við sáran höfnunarsting í hjarta – ekki höfnun höfundar með langan feril að baki- heldur þeirri höfnun sem undirstöðubókmenntaverkin fá. Þessi verk sem eiga að móta lesendur framtíðar og vera þeirra ævintýrabækur, þeirra Jónar Oddar og Bjarnar, þeirra Önnur í Grænuhlið, litlu Hjaltar og Línur og Betur. Þeirra baksýnisspegill.
Og þá segið þið réttilega: En við sendum svona bækur til umfjöllunar í Krakka-Rúv. Og við svörum: Já, og takk fyrir það. Það er svo fallegt og auðvitað bæði gott og gefandi að sitja með barnungum lesanda og fara yfir skemmtanagildið og söguþráðinn í eigin verki. Það er yndislegt.
En þarna er munur á og ég skal útskýra:
Það er líkt og Kiljan fengi manneskju af götunni til að sitja á móti höfundi og segja honum feimnislega hvað viðkomandi þætti um verkin hans. Sem er samt ef til vill spennandi tilraun. Á sama tíma þarf þó nauðsynlega að fjalla faglega um barna- og fjölskyldubækur. Það vantar svo sannarlega miklu stærra ljós á þær meðal fullorðinna áheyranda og hlustenda og alls almennings til að veita þeim þá vængi sem þær þurfa til að fljúga yfir ólgusjó áreitisins. Og þar getum við bara reitt okkur á RÚV sem sameiginlega menningarstofnun þjóðar. Við deilum endalaust um það hvort við séum að tapa börnunum frá bókinni. Og auðvitað gerum við það hraðar ef það eru ekki allir á sömu blaðsíðu- ef þeir sem fjalla um bækur eru ekki bara á annarri blaðsíðu heldur í allt annarri bók og lúta ekki svo lágt að fjalla faglega um eina tiltekna tegund bókmennta. Umfangsmesta efnislega umfjöllun um barnabækur í fjölmiðlum fyrir þessi jól er líklega yfirstaðin og hún fjallaði að mestu um hjúkrunarfræðinga.
Barna- og fjölskyldubækur eiga það sameiginlegt, þegar best tekst til, að þær sameina kynslóðir, draga marga að til að lesa saman og deila sögum. Þær fjallar um stóru málin sem börn og fullorðnir þurfa að glíma við saman, um lífið og dauðann, hversdaginn, gleðina, einsemdina, sorgina og söknuðinn. Allt þetta eigum við saman og meira til, börn og fullorðnir – manneskjur á öllum aldri.
Í vinsemd og af virðingu og kærleika bið ég ykkur að fjalla ekki um barna- og fjölskyldubækur með þeim hætti sem gert er nú í Kiljunni. Það er einungis til að gera lítið úr mikilvægum verkum og særa þá metnaðarfullu höfunda sem reyna að viðhalda grunnstoðum og bóklestri í landinu. Það fjall er alveg nógu bratt.
Kristín Helga Gunnarsdóttir
rithöfundur