Jakob S. Jónsson um Einræðisherrann í Þjóðleikhúsinu:
Sigurður gæðir flækinginn og einræðisherrann sínu lífi og sinni sál
—Einfaldlega falleg og glæsileg listræn sýning
Sú var tíðin – einkum á árum Guðlaugs Rósinkranz þjóðleikhússtjóra – að Þjóðleikhúsið var gagnrýnt fyrir að kaupa sýningar í heilu lagi erlendis frá, leikstjórn og listræna hönnun eins og leikmynd og búninga, léti svo nægja að þýða textann og íslenskum leikhúsgestum svo boðið uppá þennan augljósa skort á listrænum frumleik. Einræðisherrann, sem nú hefur verið tekinn til sýninga á stóra sviði Þjóðleikhússins er með sama marki brenndur. Frumhugmyndin er vissulega samnefnd kvikmynd Charlie Chaplin, sem frumsýnd var 1932, en hugmyndin að sviðsgerðinni mun vera dönsk, og var sú sýning frumsýnd undir stjórn sama leikstjóra og stjórnar sýningu Þjóðleikhússins, Nicolaj Cederholm og leikmynd og búningar komnir úr sömu smiðju. Sá er þó munur – og hann talsverður! – að sýning Þjóðleikhússins skartar frumsaminni tónlist Karls Olgeirssonar og ekkert nema gott eitt um hana að segja.
Svo er spurning, hvort sé ómaksins vert að agnúast út í kaup og sölu á listrænum hugbúnaði milli landa – erum við ekki orðin svo alþjóðleg að einu megi skipta hvar hugmyndir fæðast og hvar þær birtast? Slíkar vangaveltur eiga vissulega rétt á sér, en hvað sem þeim líður er þó óhætt að segja að fá verk eiga sér betri alþjóðlega skírskotun á okkar tímum en einmitt Einræðisherra Charlie Chaplins. Þetta ádeiluverk hans beinir spjótum sínum að alræmdum einræðisherra síns tíma, Adolf Hitler, og heimsvaldastefnu hans. Þótt nær öld sé liðin frá því að Hitler lét á sér kræla má sjá samsvarandi tilhneigingu víðar í pópúlisma vorra tíma og virðast síst skárri.
Það verður hins vegar að segjast eins og er, að það er ekki fólgin nein áhætta, hvorki listræn né pólítísk, að taka til sýningar verk á Einræðisherra Chaplins – reyndar er eins og einræðisherra þriðja ríkisins sé sérlega hugleikinn listrænum stjórnendum Þjóðleikhússins; það er ekki ýkja langt síðan til stóð að setja á svið sýningu um endurkomu Hitlers til nútímans en sú hugmynd vék á síðustu stundu fyrir Álfahöllinni, sem snerist um okkar eigin sögu og meira að segja sjálft Þjóðleikhúsið. Það var satt að segja meiri pólítísk áhætta tekin með þeirri sýningu. Sem er í sjálfu sér umhugsunar vert.
En kannski er hreinlega ekki ætlunin að taka pólítíska eða listræna áhættu með Einræðisherranum. Kannski er meiningin aðeins sú að gefa snjöllum leikara færi á stjörnuleik og og okkur áhorfendum ánægjulega kvöldstund í leikhúsi og uppbyggilega sögu í ábót – eins konar Hálsaskóg okkar fullorðna fólksins svo við sannfærumst í enn eitt skiptið um að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir og að ekkert dýr megi éta annað. Og það má vel styðja það gildum rökum að sá boðskapur eigi erindi til vorra tíma.
Hjá hinu verður heldur ekki horft að – hvað sem líður erlendum uppruna sýningarinnar – er Einræðisherrann eins og sniðinn að okkar ástkæra kómíker, Sigurði Sigurjónssyni. Það er eitthvað líkt með báðum, Charlie Chaplin og Sigga Sigurjóns, einhver undarlegur samhljómur sem þeir eiga sér og sem nær útfyrir sjálfa leiklistina, leiktæknina, kómíkina og slapstikkið – sem báðir búa þó yfir í ríkum mæli. List beggja er húmanísk, húmorinn þeirra á sér alltaf einhvern æðri og dýpri tilgang. Það hefur verið skoðað og skilgreint af fræðingum í tilviki Chaplins og það væri sannarlega verðugt verkefni að skilgreina list leikarans Sigurðar Sigurjónssonar; mér segir hugur um að sannast myndi að snertifletirnir milli þeirra Charlie og Sigga eru óvéfengjanlegir og ekta.
Sigurður Sigurjónsson hefur flækinginn hans Charlie Chaplin – og einræðisherrann Hynkel – svo fullkomlega á valdi sínu að manni virðist eins og Charlie Chaplin sé upprisinn á sviði Þjóðleikhússins. Þó er ekki um eftirhermu að ræða, hreint ekki! Sigurður gæðir hinar tvær andstæður, flækinginn og einræðisherrann, sínu lífi og sinni sál og þótt fyrirmyndin sé augljós er ekki um að ræða stælingu heldur sjálfstæða listsköpun í hvoru tveggja hlutverkinu. Hér er um aðdáunarverða vinnu að ræða og Sigurður Sigurjónsson sannar í enn eitt skiptið að hann býr yfir þjálfaðri tækni og óvéfengjanlegu listfengi í leik sínum.
Það fer ekki á milli mála að sýning eins og Einræðisherrann hverfist að verulegu leyti um aðalleikarann, enda mæðir mest á honum. Aðrir leikarar taka að sér öll önnur hlutverk og eru sumir í svo mörgum hlutverkum að gagnslaust væri að telja þau upp. En það er hins vegar langt síðan undirritaður sá jafn glæsilegt samspil leikhóps á sviði Þjóðleikhússins. Það er hreinlega eins og þessi hópur hafi ekki gert neitt annað en vinna saman í áraraðir, svo öruggt og þjálfað er samspilið. Hvergi er hnökra að finna, leikhópurinn vinnur sem einn væri og þessi fullkomna samvinna nær til leikmyndar, leikmuna og búninga einnig að ógleymdri tónlist Karls Olgeirssonar. Einræðisherrann í Þjóðleikhúsinu er einfaldlega falleg og glæsileg listræn sýning og heildin ber leikstjóra og listrænum stjórnendum gott vitni.
Söguþráður Einræðisherrans er einfaldur og væntanlega þekktur flestum: rakari nokkur býr í borg í ríki þar sem einræðisherrann kemst til valda; rakarinn er af gyðingaættum og brátt hefjast ofsóknir gegn þeim – og er hér vitaskuld um að ræða vísun í velþekkta atburðarás sem leiddi til morðæðis þriðja ríkisins og seinni heimstyrjaldarinnar. Rakarinn fellir hug til ungrar stúlku og saman taka þau á málum ásamt hópi góðra nágranna. Skemmst frá að segja sigrar hið góða að lokum og bjartari tímar framundan í leikslok. Meðan frásögnin rennur áfram í velþekktum farvegi er mikil kómíkk í gangi með alvarlegum undirtón.
Leikmyndin er hugvitsamlega gerð og býður upp á skemmtilegar lausnir, tónlistin eykur hraða atburða og allt gerist reyndar á góðum hraða, hér leiðist sko engum!
Það má spyrja þeirrar spurningar að lokum hvort leikstjórinn Nicolaj Cederholm og listrænt teymi hans – leikmyndateiknarinn Kim Witzel, búningahönnuðurinn Line Bech, kóreógrafinn Anja Gaardbo að ógleymdum tónlistargaldramanninum Karli Olgeirssyni tækist að magna hinn fallega samleik í öðrum leikverkum með þessum sama leikhóp. Þá væri til einhvers unnið og Þjóðleikhúsið nyti góðs af, okkur áhorfendum vonandi “ei blot til lyst”.
Þjóðleikhúsið: Einræðisherrann | Höfundur: Charlie Chaplin | Leikgerð og leikstjórn: Nicolaj Cederholm | Þýðing: Magnea J. Matthíasdóttir | Leikmynd: Kim Witzel | Búningar: Line Bech | Tónlistarstjórn: Karl Olgeirsson | Sviðshreyfingar: Anja Gaardbo | Slapstick: Kasper Ravnhøj | Leikarar: Sigurður Sigurjónsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Þröstur Leó Gunnarsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Oddur Júlíusson, Sigurður Þór Óskarsson.