Bráðabirgðatölur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2018:
Íslenskur vímuefnamarkaður 2018: Tíföldun kókaínneyslu og vart við heróín
Aukin marijúana-neysla virðist ryðja hassi af markaðnum
Samkvæmt bráðabirgðatölum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um afbrot á liðnu ári hefur lögreglan nú gert heróín upptækt tvö ár í röð. Heróín er með allra skaðlegustu og mest ávanabindandi fíkniefnum, en lítið hefur borið á því á Íslandi til þessa. Árið 2016 gerði lögreglan ekkert heróín upptækt, sem hefur verið reglan til þessa. Árið 2017 voru 9 grömm gerð upptæk og 25 grömm árið 2018. Þetta er lítið magn en gefur til kynna að efnið láti á sér kræla á íslenskum vímuefnamarkaði.
Í ársskýrslu Ríkislögreglustjóra árið 2017 sagði: „Heróíns hefur ekki enn orðið vart á Íslandi. Ef og þegar það gerist munu það teljast þáttaskil.“
Tíföldun kókaíns á tveimur árum
Ef það hve mikið lögreglan verður vör við efnin er vísbending um hversu útbreidd þau eru, hefur kókaínneysla á landinu aukist hraðbyri á undanförnum árum: lögreglan gerði 621 gramm upptækt árið 2016, rúm 2 kg. árið 2017 og vel yfir 6 kg. árið 2018. Á tveimur árum tífaldaðist með öðrum orðum það magn kókaíns sem lögreglan varð vör við.
Maríjúana leysir hass af hólmi
Mikið marijúana var gert upptækt á árinu, eða um 70 kílógrömm, um 150% meira magn en árið 2017. Á sama tíma dróst verulega úr því hassi sem lögreglan fékkst við.
Lögreglan gerði umtalsvert minna upptækt af amfetamíni, og metamfetamíni árið 2018 en á síðastliðnum árum, og miklu minna af alsælu í duftformi, en varð meira vör við alsælu í pilluformi en árin á undan.