„Það væri ágætis byrjun að tvöfalda heildarupphæðina“
6% listamannalauna út á land, 4% til útlanda, 90% til höfuðborgarsvæðis
Ásgeir H. Ingólfsson skrifar um listamannalaun
„Árið 2018 fóru sex prósent listamannalauna út á land, fjögur prósent til útlanda og heil 90 prósent á höfuðborgarsvæðið – en þótt þar búi flestir er prósentutalan þó nær 65 prósentum landsmanna á kjörskrá. Þessa skekkju leiðrétta listamannalaunin vel að merkja ekki – þessar prósentur eru alveg í takt við sömu prósentur í hópi umsækjanda.“
Þetta skrifar Ásgeir H. Ingólfsson í nýbirtri grein um listamannalaun í vefritinu Menningarsmygl, sem hann ritstýrir. Í greininni segir hann launasjóð listamanna höndla með smápeninga, frá sjónarmiði ríkisins. Í ár voru 650 milljónir króna til úthlutunar: „það sem kostar að malbika 13 kílómetra“, segir Ásgeir og „jafnvel á menningarsviðinu sjálfu eru þetta litlir peningar; Harpan, Þjóðminjasafnið, Sinfóníuhljómsveitin og Þjóðleikhúsið eru allt stofnanir sem eru töluvert dýrari í rekstri en listamannalaun“.
Ásgeir segir löngu kominn tíma til að „snúa dagskránni við, tilkynna listamannalaun með stolti á mánudögum – og fylla fréttatímana af kröfum um það að hækka þessi listamannalaun rækilega og fjölga sömuleiðis mánuðunum.“ Hann leggur til, sem ágætis byrjun, að „tvöfalda heildarupphæðina og nota bæði til þess að hækka launin og fjölga mánaðarlaunum rækilega“.
Aftur á móti sé um leið ástæða til að taka til skoðunar hvers vegna svo mikils óþols gætir í garð þessa sjóðs sem raun ber vitni. Þar megi finna að minnsta kosti tvær mögulegar ástæður til að staldra við, stéttapólitík og byggðapólitík. Í samhengi við byggðapólitíkina megi þó nálgast tölfræði til greiningar, samanber tilvitnun að ofan, en um stéttskiptingu listamannalauna sé erfiðara að segja, því um hana sé engin tölfræði til:
„Launalega eru listamenn vel að merkja flestir í láglaunastétt, en spurningin er kannski frekar úr hvaða stétt þeir koma, eiga börn úr lágstétt sömu möguleika í listaheiminum og millistéttarkrakkar og yfirstéttarkrakkar?“