„Þetta var allt í góðu gert“ sagði saksóknari:
Saga kvikmyndahátíða í Reykjavík hófst með ritskoðun
„Gæti eyðilagt hugmyndir ungs, óharðnaðs fólks um þessa hluti“ sagði Vigdís Finnbogadóttir
Skrifstofur yfirmanna í Seðlabankanum teljast varla almannarými og þær myndir Gunnlaugs Blöndal sem deilt hefur verið um síðustu daga verða, er sagt, fljótlega aðgengilegar almenningi í sýningarrými. Deilan um meðferð verkanna hefur engu að síður snertiflöt við fyrri átök á Íslandi um birtingarmyndir líkamans í listaverkum. Ein slík deila kom upp árið 1978, í tilefni af fyrstu kvikmyndahátíð sem haldin var í Reykjavík.
Kvikmyndahátíð og 210. greinin
Tæp 41 ár eru nú liðin frá því að framkvæmdastjórn Listahátíðar hætti við sýningar japönsku verðlaunakvikmyndarinnar Ai no corrida, eða Veldi tilfinninganna eins og hún hét á íslensku, á kvikmyndahátíðinni 1978. Myndin er eftir Nagisa Oshima.
Í íslenskum fjölmiðlum á þessum tíma var myndin sögð hafa verið verðlaunuð sem „besta erlenda kvikmyndin“ á kvikmyndahátíðinni í Cannes 1976. Eitthvað hefur það skolast til: myndin var sýnd á Cannes og leikstjórinn, Oshima, hlaut leikstjóraverðlaun á Cannes fyrir aðra mynd árið 1978. Hvað sem því líður, þótti framkvæmdastjórn Listahátíðar rétt að bera fyrirhugaðar sýningar myndarinnar undir yfirvöld til að úrskurða, áður en hún yrði tekin til sýningar á kvikmyndahátíð, hvort myndin teldist klám og varðaði því við 210. grein almennra hegningarlaga.
Enn í dag leggur 210. greinin blátt bann við klámi, án frekari skilgreiningar:
„Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt.“
Saksóknari og rannsóknarlögreglustjóri á veldi tilfinninganna
Það kom í hlut Þórðar Björnssonar, saksóknara, og Hallvarðs Einvarðssonar, rannsóknarlögreglustjóra sem þá hét, að úrskurða í málinu. Eftir að horfa á myndina komust þeir sameiginlega að þeirri niðurstöðu að kvikmyndin varðaði við lagagreinina eins og hún var túlkuð um þær mundir. Í umfjöllun Morgunblaðsins frá þeim tíma biður Þórður um að skýrt komi fram að þó að þeir telji myndina „ótvírætt brjóta í bága við ákvæði 210. greinar hegningarlaganna“ og hafi lýst þeirri skoðun við framkvæmdastjórn Listahátíðar, var ekki:
„um neitt fyrirfram bann að ræða af okkar hálfu. Við lýstum aðeins yfir áliti okkar á myndinni eftir að hafa skoðað hana skv. ábendingu lögskipaðrart nefndar sem skoðar allar kvikmyndir í þeim tilgangi að ákveða hvort þær skuli bannaðar börnum. Það var síðan framkvæmdastjórnarinnar að ákvarða hvort myndin yrði sýnd eða ekki, eftir að við höfðum gert grein fyrir áliti okkar á myndinni og hvernig sýning hennar stæði gagnvart hegningarlögunum. Þetta var allt í góðu gert.“
Hefði þurft að klippa tólf sinnum
Lögreglustjóri og saksóknarar virðast ekki hafa verið einir um það álit að sýning kvikmyndarinnar myndi varða við lög. Í frétt Dagblaðsins af málinu er haft eftir ónefndum framkvæmdastjóra kvikmyndahúss í Reykjavík að „hefði hann tekið myndina til sýninga hefði hann ekki séð sér fært að láta klippa hana sjaldnar en ellefu til tólf sinnum.“
Sömu frétt lýkur á þessum orðum: „Kvikmyndahátíðin sýnir í dag kl. 7 myndina Sæt mynd í stað japönsku verðlaunamyndarinnar.“
Daginn eftir ræðir blaðið frekar við rannsóknarlögreglustjórann sem segir: „Niðurstaða okkar var sú að sýningar var sú að sýningar á þessari kvikmynd myndu brjóta í bága við 210. grein hegningarlaganna. Það er allt og sumt.“ Spurður hvernig honum hafi þótt myndin frá listrænu sjónarmiði er lögreglustjórinn sagður hafa „hummað lítillega“ en ekkert viljað láta hafa eftir sér.
Hætt við að myndin skapaði fordæmi, sagði Vigdís
Vigdís Finnbogadóttir sem síðar varð forseti landsins var á þessum tíma leikhússtjóri og sat í framkvæmdastjórn Listahátíðar. Dagblaðið tók hana tali vegna málsins. Þar sagðist hún „heldur lítið hneykslunargjörn manneskja“ en þó áliti hún tvö atriði standa í vegi fyrir því að myndin verði sýnd á Íslandi:
„Í fyrsta lagi tel ég að ungu fólki undir tvítugu sé ekki hollt að sjá hana. Myndin er stanzlaus ástarleikur í tvær klukkustundir og hún gæti eyðilagt hugmyndir ungs, óharðnaðs fólks um þessa hluti.“
Í öðru lagi væri:
„hætt við því að ef sýningar á Veldi tilfinninganna yrðu leyfðar hér skapaðist þar fordæmi, sem ylli því að alls kyns pornómyndir flæddu inn í landi — myndir sem stæðu japönsku myndinni langt að baki hvað listrænt mat varðar.“
Að þessu leyti sagðist Vigdís „skilja sjónarmið yfirvalda er þau ákváðu að stöðva sýningar á myndinni“.
Undir tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar um stöðvun sýningarinnar skrifa Vigdís, Davíð Oddsson, síðar forsætisráðherra, Kristinn Hallsson og Atli Heimir Sveinsson. Fimmti meðlimur framkvæmdastjórnar, Thor Vilhjálmsson, var ósamþykkur ákvörðuninni og skilaði séráliti. Thor vildi að látið yrði reyna á málið fyrir dómstólum, meðal annars til að knýja fram lagalega skilgreiningu á hugtakinu klám.
„Væri ég saksóknari hefði ég frekar reynt að …“
Fjöldi listafólks og kvikmyndagerðarfólks hölluðust heldur til afstöðu Thors en sýndu þó yfirvöldum nokkurn skilning. „Á vissan hátt skil ég þessar aðgerðir,“ sagði til að mynda Gísli Gestsson kvikmyndagerðarmaður sem tók þátt í undirbúningi kvikmyndahátíðarinnar sjálfrar. Hann sagðist sjálfur telja Veldi tilfinninganna „mjög listræna kvikmynd“ og benti á að British Film Institute hefði kosið hana „beztu mynd ársins fyrir nokkru og sú stofnun gerir miklar listrænar kröfur“. Þá bætti Gísli við:
„Væri ég saksóknari hefði ég frekar reynt að hafa áhrif á mynd Makavejevs, Sweet Movie. Sú mynd er virkilega sóðaleg en það er sú japanska alls ekki. Hún er á allt öðru plani.“
Til að allrar sanngirni sé gætt hefur óritskoðuð, upprunaleg útgáfa Veldi tilfinninganna enn í dag ekki verið tekin til sýninga í Japan.