„Meiri viðburður en látlaust yfirbragð sýningarinnar gefur í skyn“
Hetja sem fellur í fjörlegum leik
Jakob S. Jónsson um Gísla Súrsson í Tjarnarbíói
Sumar stundir í leikhúsi eru yndislegri en aðrar – og hér greinir frá einni slíkri: Kómedíuleikhúsið heiðrar um þessar mundir höfuðborgarbúa með Gísla sínum Súrssyni á sviði Tjarnarbíós og það er leikhússtund sem enginn ætti að missa af sem hefur á annað borð gaman af leikhúsi í sinni tærustu mynd. Og hér er við hæfi að benda sérstaklega Leiklistarráði og öðrum þeim stofnunum sem styrkja leikhús í í landinu að sjá með eigin augum þá list sem vex fyrir vestan eins og lítið blóm – og þarfnast vissulega alúðar og aðhlynningar þeirra sem halda um sjóði og styrki.
Það var ákaflega fámennt (en auðvitað góðmennt) í anddyri Tjarnarbíós fyrir fyrstu sýningu á Gísla Súrssyni í höfuðborginni. Engu að síður var boðið til sætis enda sjálfsagt að mati aðstandenda að veita þeim blessun Þalíu sem hafa lagt á sig ferð til að njóta hennar. Ég held við höfum verið fimm alls í sal Tjarnarbíós en fámennistilfinningin hvarf eins og dögg fyrir sólu á fyrstu andartökum sýningarinnar. Það gerist ekki nema fyrir hina sérstöku töfra leikhússins.
Elfar Logi er fyrst og fremst sögumaður í þessari sýningu og það í tvennum skilningi. Hann miðlar sögunni af Gísla Súrssyni í hlutverki sögumannsins Snorra, sem er eins konar alvaldur sem bæði segir söguna og rekur hana áfram og laðar okkur lipurlega og örugglega inn í heim hennar og fær okkur til að finnast við þar heimakomin eins og ekkert væri eðlilegra. Hann talar til okkar eins og við værum fullur salur af fólki og hafi einhverjum þótt vandræðalegt að vera svo fámennur söfnuður í svo stórum sal, þá eyðir sagnasnilld Elfars Loga öllum slíkum vandræðagangi. En Elfar Logi er líka leikarinn á bak við tjöldin (þótt hann standi beint fyrir framan okkur á sviðinu) sem bregður sér í hlutverk allra annarra persóna sögunnar sem eiga í samræðum hvor við aðra og við Snorra sögumann. Þar reynir á færni og fimi og oft gaman að fylgjast með því þegar hiti færðist í leikinn og Snorra sögumanni fannst hann þurfa að hafa stjórn á sínu fólki, sem var þó ekki alltaf á þeim buxunum að láta að stjórn.
Gísla saga Súrssonar er sennilega flestum kunn. Hún gerist á Vestfjörðum og meginþráður hennar mun vera sannsögulegur þótt færður sé í skáldlega búning, en atburðir sögunnar munu hafa gerst um mkiðbik og á seinni hluta tíundu aldar, þ.e. fyrir kristnitöku. Wikipedia greinir svo frá, að sagan segi frá ósættum og mannvígum frá sjónarmiði hins forna siðar frændseminnar að virðing ættarinnar krefjist hefnda ef vegin eru ættmenni. Ekki alveg óþekkt þema þegar um ræðir Íslendingasögur.
Faðir Gísla Súrssonar, Þorbjörn, flytur frá Noregi ásamt fjölskyldu sinni og þar með taldir eru bræðurnir Gísli og Þorkell. Hann sest að í Haukadal í Dýrafirði og eftir lát hans situr Þorkell í föðurgarði en Gísli flytur að Sæbóli innar í Dýrafirði ásamt konu sinni, Auði. Gísli og Þorkell bróðir hans ganga í fóstbræðralag ásamt mági þeirra, Þorgrími, sem giftur var Þórdísi systur þeirra, og Vésteini, sem var bróðir Auðar og þar með mágur Gísla.
Með fóstbræðralaginu tengjast þessir menn böndum sem fjölskyldubönd væru, eða blóðbönd, og hefndarskyldan þar með mikilvæg. Fljótlega verða þó brestir í fóstbræðrabandalaginu og úr verða mannvíg mikil sem verða til þess að Gísli neyðist til að flýja, hundeltur af fjölda manns og er á endanum veginn eftir að hafa barist hetjulega gegn ofurefli.

„Snorra sögumanni fannst hann þurfa að hafa stjórn á sínu fólki, sem var þó ekki alltaf á þeim buxunum að láta að stjórn.“
Eins og vera ber í Íslendingasögu og áður er á minnst, kemur við sögu aragrúi einstaklinga og má ljóst vera að hverjum þeim sem ætlar að segja þá sögu á einni klukkustund og gera greinarmun á persónum svo áhorfendur ruglist hvergi er nokkur vandi á höndum. Hérna verður list leikhússins hvað tærust í Gísla sögu í meðförum Kómedíuleikhússins: alls kyns fígúrur, skapaðar af hugmyndaauðgi úr tré og málaðar í litum íslenskra miðalda eru persónur sögunnar og Elfar Logi ljáir hverri þeirra sérstaka rödd, skapgerð og ryþma þannig að fyrir augum okkar birtast heilu fjöldasenurnar á stundum þar sem ægir saman fólki og röddum. Elfar Logi heldur vel utanum atburðarásina, leikurinn er fjörlegur og spennandi og allar persónur sem við sögu koma skýrt fyrir að hvergi er neinu ruglað saman – frekar að sagan verði hreinlega skiljanlegri en þegar hún er lesin af bók og þá er líka sögumaðurinn – hvort sem það er Snorri eða leikarinn Elfar Logi – búinn að sanna sinn tilgang og tilverurétt.
Gísla saga Súrssonar endar heldur illa. Söguhetjan – með áherslu á orðið „hetja“ – berst frækilega en verður að lúta í lægra haldi og verður harmdauði lesandanum. En þannig er það í heimi Íslendingasagna – sú hetja sem tekur fram yfir aðra hagsmuni en samfélagshagsmuni dæmir sig úr leik og það er sá harmur sem hvílir yfir öllum hetjum þessa stórkostlega bókmenntaarfs. Það er hreint ekki loku fyrir það skotið að við nútímamenn gætum lært eitthvað af harmrænum endalokum hetja á borð við Gísla; það gæti í það minnsta aldrei gerst að Gísli slyppi með skrekkinn, hyrfi um tíma, kæmi svo aftur og segðist hafa horft í spegil, segðist vera rosa sorrí en nú skyldum við horfa til framtíðar. Sá er munurinn á andhetjum nútímans og sönnum hetjum íslenskra miðalda. Og kannski einmitt þess vegna nauðsynlegt að rifja upp sagnaarfinn, gera hann sýnilegan og skiljanlegan nýjum kynslóðum – því það er eðli manna að reyna að flýja harm sinn, lærdómurinn sem draga má af Íslendingasögunum er að það er ekki hægt.
Slíkar vangaveltur geta vitanlega verið skemmtilegar og átt þátt í því að draga áhorfandann út úr boxinu, eins og stundum er sagt. Hvað sem því líður er líka hægt að líta á sýningu Kómedíuleikhússins sem ágæta afþreyingu sem vekur áhuga á þeim menningararfi sem óneitanlega heyrir okkur Íslendingum til. Í því ljósi er sýning Kómedíuleikhússins meiri viðburður en látlaust yfirbragð sýningarinnar gefur í skyn, vel þess virði og meira að segja mikilvægt að sjá.
Jakob S. Jónsson
Kómedíuleikhúsið í samvinnu við Tjarnarbíó: Gísli Súrsson | Höfundar: Elfar Logi Hannesson, Jón Stefán Kristjánsson | Leikstjórn: Jón Stefán Kristjánsson | Leikmynd: Jón Stefán Kristjánsson og Marsibil G. Kristjánsdóttir | Búningar: Alda Veiga Sigurðardóttir, Marsibil G. Kristjánsdóttir | Leikari: Elfar Logi Hannesson