Nær 10% ríkisborgara Venesúela hafa flutt á brott í efnahagslægðinni
Fleiri brottfluttir frá Íslandi en Venesúela
13% íslenskra ríkisborgara hafa flutt brott, ástæður að miklu leyti ókunnar
Stuðningsmenn valdaránstilraunarinnar í Venesúela færa meðal annars þau rök fyrir því að skipta um valdhafa án undangenginna kosninga að á síðustu árum hafi fjöldi íbúa í landinu flutt á brott, sem hafa megi til marks um óöldina sem þar ríkir. Engum blöðum er um það að fletta að efnahagslægð ríkir í Venesúela og bitnar, sem endranær, verst á lægri stéttum. Orsakir kreppunnar eru að minnsta kosti þríþættar: í fyrsta lagi að efnahagur landsins er öðru fremur háður útflutningi á einni auðlind, olíu, og reyndist illa í stakk búinn að mæta lækkun á heimsmarkaðsverði hennar; í öðru lagi nefnir fólk til sögunnar stefnu stjórnvalda og slæmar ákvarðanir; í þriðja lagi efnahagsþvinganir annarra landa, einkum Bandaríkjanna. Um þessar þrjár orsakir sammælast allir athugendur, en greinir á hvor hinna tveggja síðarnefndu vegur þyngra.
Venesúela: 3 af 32 milljónum brottflutt
Hvað sem því líður hefur fjöldi fólks flúið landið á undanliðnum árum. Samkvæmt opinberum tölum undirstofnunar Sameinuðu þjóðanna, International Organization for Migration, voru brottfluttir frá Venesúela um 700.000 árið 2015. Í nóvember á síðasta ári kynnti stofnunin ný gögn og sagði fjölda brottfluttra hafa vaxið í 3 milljónir manna. 2,4 milljónir þeirra hafast við í öðrum löndum Suður-Ameríku, þar af flestir í Kólombíu, eða um ein milljón.
Íbúafjöldi Venesuela er um 32 milljónir. Fjöldi brottfluttra er því á bilinu 9–10% íbúa.
Ísland: 47.000 af 359.000 brottflutt
Samkvæmt gögnum Hagstofunnar var, á sama tíma, fjöldi íslenskra ríkisborgara sem hafa flust burt og skráð erlenda búsetu hjá Þjóðskrá um 47.000. Íslenskir ríkisborgarar eru alls um 359.000 og er hlutfall brottfluttra Íslendinga því um 13% af heildarfjöldanum. Eins og fram kemur á vefsíðu borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytisins er þetta afar hátt hlutfall og er þar nefnt til samanburðar að aðeins um 4% Norðmanna búi utan heimalandsins.
Til samanburðar má einnig nefna að flestir Pólverjar fluttu burt frá upprunalandinu og leituðu starfa annars staðar árið 2007. Þegar mest bjuggu 2,3 milljónir Pólverja erlendis, af alls 38 milljónum, eða 6% íbúanna.
63% brottfluttra Íslendinga búa á Norðurlöndunum. 13% búa í Bandaríkjunum, 5% í Bretlandi og 3,5% í Þýskalandi.
Íslendingar eru þjóð útfltyjenda
Gísli Gunnarsson, sagnfræðingur, skrifaði á Facebook árið 2012 að samkvæmt útreikningum sínum á tölum Hagstofunnar hefðu nær hvert ár frá árinu 1990 fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess. Það eigi raunar við „um allt tímabilið 1960–2011“. Samkvæmt útreikningum hans flyst áttundi hver Íslendingur brott, sest að í útlöndum „að því er best er hægt að sjá fyrir fullt og allt, auk þess mikla fjölda sem búíð hefur erlendis um tíma en snúið aftur til landsins“. Þetta dregur hann saman með þeim orðum að Íslendingar séu þjóð útflytjenda.
Ekki er vitað til að greining hafi farið fram eða könnun verið gerð á ástæðum þess að svo margir Íslendingar flytja burt, eða „kjósa með fótunum“ eins og það er orðað í samhengi við Venesúela. Af viðtölum sem tekin voru við brottflutta í kjölfar efnahagshrunsins 2008 mátti ráða að nokkur fjöldi hefði kosið að flytja annað vegna efnahagsástandsins, en án frekari rannsókna er engin leið að segja til um hvers konar ástæður vega þyngst af þeim sem þar liggja að baki. Eftir stendur að hærra hlutfall Íslendinga hefur kosið að flytja burt frá upprunalandi sínu en hlutfall íbúa Venesúela.