Mótmælaganga á miðvikudag kl. 16:
Krefjast sanngjarnari málsmeðferðar og að engin umsókn teljist „tilhæfulaus“
Mótmælin skipulögð af flóttafólkinu sjálfu
Boðað hefur verið til mótmæla á morgun, miðvikudaginn 13. febrúar klukkan 16:00. Gengið verður frá Hallgrímskirkju að Austurvelli.
Tilefnið er, samkvæmt fréttatilkynningu, fjöldi brottvísana sem blasa við flóttafólki, en samkvæmt fólkinu er allt að 4 manns brottvísað á viku núna. Þar segir að mótmælin séu fyrst og fremst leidd af þeim sem búa í töluverðri einangrun á Ásbrú. Kröfurnar eru meðal annars um sanngjarnari málsmeðferð og að engin umsókn verði dæmd „tilhæfulaus“.
„Mótmælin eru skipulögð af flóttafólkinu sjálfu,“ segir í tilkynningunni, „en stór rúta mun flytja fólkið frá Keflavík til Reykjavíkur.“
Á Facebook-síðu viðburðarins kemur fram að árið 2017 hafi 1.293 manns sótt um vernd og 135 fengið jákvæða niðurstöðu. Þeir sem eftir standa, 1.158 manns, hafi verið send úr landi. Árið 2018 sóttu 790 manns um vernd, samkvæmt því er þar kemur fram, 160 fengu vernd en 630 voru sendir úr landi. Það eru að meðaltali 12 manns á viku.
Athugið að tímasetningu mótmælanna var breytt eftir birtingu. Þau hefjast kl. 16.