Héraðsdómur úrskurðar í máli Ernu Reku
Brottvísun barnsins skal standa
Bjó á Íslandi frá fæðingu, brottvísað við 14 mánaða aldur
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað nú að morgni miðvikudags upp úrskurð sinn í máli Ernu Reku, 19 mánaða gamallar stúlku sem fæddist á Íslandi og bjó þar óslitið til 14 mánaða aldurs. Dómstóllinn hnekkti ekki niðurstöðu Kærunefndar útlendingamála: samkvæmt úrskurðinum fær Erna Reka nafn sitt ekki skráð í Þjóðskrá og verður ákvörðun um brottvísun hennar því ekki afturkölluð.

Erna Reka með móður sinni, sumarið 2018.
Foreldrar Ernu eru albanskir ríkisborgarar sem höfðu löglega dvöl á Íslandi þegar barnið fæddist og fram á annað ár ævi hennar. Samkvæmt 102. grein útlendingalaga er óheimilt að vísa manneskju úr landi sem átt hefur fasta búsetu á Íslandi frá fæðingu samkvæmt Þjóðskrá. Þjóðskrá skráði barnið hins vegar í svonefnda „utangarðsskrá“ sem virðist hjáleið hjá lögunum. Foreldrar Ernu og talsmaður fjölskyldunnar segja þessa mismunun við skráningu á búsetu barna fela í sér brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Rökstuðningur dómsins hefur ekki verið birtur þegar þetta er ritað.