Atlantshafsvæðing Norðuríshafs:
Loðnan horfin vegna hlýnunar?
Nærist á svifþörungum sem blómstra í lagskiptum sjó
Á þriðjudag barst sú frétt að engin loðna veiðist nú lengur við Ísland, né sé þess að vænta að hún finnist þar aftur í verulegu magni á næstunni. Í viðtali við RÚV sagði Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkissviðs Hafrannsóknastofnunar, að brotthvarfið tengist „þessum umhverfisbreytingum sem hafa verið að eiga sér stað síðustu 20 árin“.
Nánar til tekið lítur út fyrir að brotthvarf loðnunnar tengist yfirvofandi, ef ekki yfirstandandi, „Atlantshafsvæðing Norðuríshafs“, í þeirri merkingu að hitastig og þar með vistkerfi Norðuríshafsins verði líkara Atlantshafi en það hefur verið hingað til. Orsakavaldurinn að baki þeirri þróun er hnatthlýnun.
Atlantshafsvæðing Norðuríshafs
Atlantshafsvæðingarinnar er þegar vart á Barentshafi, sem telst að hálu til Norðuríshafs. Hafísinn sem berst árlega til Barentshafs úr norðri rýrnaði um 40 prósent, að flatarmáli, frá 1979 til 2015. Að rúmmáli rýrnaði hafísinnflutningurinn um 60 prósent. Þetta kemur fram í rannsókn vísindamanna í Tromsø, Noregi, sem birtist í tímaritinu Nature á síðasta ári.
Rýrnun hafíss gjörbreytir lagskiptingu sjávar, þar sem bráðnun ferskvatns úr hafísnum hefur leikið lykilhlutverk: við hefðbundnar kringumstæður leitar kalt ferskvatn sem bráðnar úr ísnum niður á við, en saltari sjór og hlýrri liggur ofar í hafinu. Efstu 60 metrar Barentshafs eru nú 1,5 gráðum hlýrri, að meðaltali, en þeir voru á tímabilinu frá 1979 til 1999. Hlýnunin er vægari en þó nokkur á meira dýpi, eða 0,5 til 0,8 gráður. Haldi þróunin áfram sem horfir verður lagskipting Barentshafs úr sögunni árið 2040.
Þörungarnir flytja og loðnan með
Fyrsta dæmið sem tekið er um óvissar afleiðingar þessa, í umfjöllun tímaritsins Carbon Brief um rannsóknina, er loðnan. Loðna er ekki aðeins eftirsóttur fengur sjálf heldur er hún einnig lykilfæði nokkurra annarra nytjastofna í Atlantshafi: þorskur, selir, hvalir og makríll eiga það allir sameiginlegt að nærast á loðnu. Loðnan, aftur á móti, liggur neðar í fæðukeðjunni og nærist á svifi, einkum svifþörungum. Magn þeirra springur út við kjörskilyrði, í svokallaða þörungablóma. Kjörskilyrði þeirra á mörkum Atlantshafs og Norðuríshafs eru háð fyrrnefndri lagskiptingu sem nú fer dvínandi.
Þetta eru umfangsmikil vistkerfi og orsakasamhengi breytinga þar er ekki þekkt til hlítar. Norska rannsóknarteymið spáði því ekki að loðnan hyrfi af Íslandsmiðum á þessu ári. En rannsóknir þeirra sem birtust á síðasta ári bentu til að verulegra breytinga gæti verið að vænta á háttum loðnustofna á þessum svæðum almennt, vegna hafísrýrnunar.