Nýr vettvangur nemenda til að standa vörð um réttindi barna:
Skólafélagar Zainab Safari berjast fyrir rétti hennar til að vera á Íslandi
„Réttindaráð Hagaskóla mótmælir harðlega þeim áformum að vísa Zainab og fjölskyldu hennar úr landi“
Fjölmiðlum barst á þriðjudag tilkynning frá Réttindaráði Hagaskóla, um ályktun ráðsins frá 6. mars sl. Álytkunin snýst um réttindi nemanda við skólann, Zainab Safari, og fjölskyldu hennar. Zainab er 14 ára gömul stúlka frá Afganistan, að því er fram kemur í tilkynningunni. Hún er „í góðum bekk í Hagaskóla og líður vel með nemendum og starfsmönnum sem styðja við bak hennar“. Hún hefur „þurft að ganga í gegnum hluti sem ekkert barn eða fullorðinn einstaklingur ætti að þurfa að ganga í gegnum“. Yfirvöld útlendingamála á Íslandi hafa tilkynnt Zainab og fjölskyldu hennar að þau fái ekki dvalarleyfi á Íslandi og verði send til Grikklands, að ætla má í krafti Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ályktun Réttindaráðsins segir:
„Réttindaráð Hagaskóla mótmælir harðlega þeim áformum að vísa Zainab og fjölskyldu hennar úr landi, út í óvissu sem hræðir fjölskylduna mjög. Ísland er aðili að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sáttmálinn hefur verið lögleiddur á Íslandi en samkvæmt 3. grein skulu yfirvöld taka allar ákvarðanir er varða börn með hagsmuni barna að leiðarljósi. Það sem barninu er fyrir bestu á að ráða. Einnig fjallar Barnasáttmálinn um rétt barna til góðra lífsskilyrða (grein 27), vernd gegn ofbeldi (grein 18) og rétt til menntunar (grein 28), svo dæmi séu nefnd. Við skorum á stjórnvöld að taka tillit til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna við ákvörðun sína.“
Undir þessa ályktun rita fulltrúar Réttindaráðs Hagaskóla: Sindri Bjarkason og Elín Sara Richter, nemendur í 10. bekk, Freyja Kristinsdóttir og Jóhanna Helga Ingadóttir, nemendur í 9. bekk, Svava Ljósbrá Skagfjörð og Svanbjörn Orri Thoroddsen í 8. bekk, ásamt einu foreldri, einum deildarstjóra og tveimur kennurum.

Ómar Örn Magnússon, kennari við Hagaskóla.
Réttindaráð nemenda sem uppfylling Barnasáttmála SÞ
Um mál fjölskyldunnar er fjallað í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Þar segir móðir Zainab að í Grikklandi bíði þeirra aðeins líf á götunni. Ómar Örn Magnússon, kennari við Hagaskóla og fulltrúi í Réttindaráði nemenda, segir ekkert nýtt hafa frést af málinu, það hann viti, frá því að Réttindaráðið ályktaði um það.
„Það sem gerist er að nemendur hér fengu upplýsingar um málið. Þau finna til með skólafélaga sínum og velta fyrir sér hvað þau geti gert. Þau komu úr ýmsum áttum og ýmsum hópum til ýmissa starfsmanna og spurðu: „Hvað getum við gert? Við leyfum henni auðvitað að finna fyrir hlýju og væntumþykju en getum við mótmælt, eigum við að fara með spjöld? Hvert þá? Getum við safnað undirskriftum eða sagt skoðun okkar einhvern veginn?“ Auðvitað eiga þau helst að móta sér skoðun um málefni líðandi stundar og svona mál.“
Réttindaráð skólans er nýstofnað, sem hluti af innleiðingu Barnasáttmála SÞ, en Hagaskóli er réttindaskóli UNICEF. Þar var málið tekið fyrir þegar það kom upp, segir Ómar. Ráðið hafi fengið að heyra sögu Zainab frá henni sjálfri.
„Okkur fannst það kannski ekki hlutverk okkar að hvetja nemendur til aðgerða, en við ættum að minnsta kosti að senda frá okkur ályktun, sem við gerðum.“
Réttindaráðið er hluti af nýju verkefni um réttindaskóla UNICEF, segir Ómar, sem hefur hingað til bara verið stofnað til í skólum í Reykjavík. Það sé að breskri fyrirmynd,
„ákveðið innleiðingarferli sem felst í því að reyna að tryggja að allt starf í skólanum taki mið af Barnasáttmála SÞ, sem náttúrulega segir meðal annars að börn eigi rétt á að tjá skoðanir sínar og hafa áhrif á umhverfi sitt. Það segir líka í Barnasáttmála SÞ að ríkjum beri að vernda börn, þá alveg sérstaklega börn sem eru viðkvæm, og eru flóttamenn meðal annars nefndir.“
Mega unglingar tjá skoðanir án samþykkis foreldra?
Þar til í upphafi marsmánaðar segir Ómar að verkefnið hafi að miklu leyti falist í að rýna innra starf í skólanum, að börnin hafi eitthvað að segja um hvaða matur er í hádegi, hvort skólastarf hefst átta, níu eða tíu á morgnana. „Síðan kemur bara eitthvað svona mál sem að mér og nemendum mörgum finnst kannski skipta miklu meira máli en hvað við fáum að borða í hádeginu. Þá tökum við það upp og skoðum það.“ Þegar blaðamaður hefur orð á því að fróðlegt verði að fylgjast með framhaldi verkefnisins og hvernig nemendur muni beita vettvangi réttindaráðsins tekur Ómar undir það og bætir við að hann hafi „ekki gert annað í dag en vera í sambandi við lögfræðinga sem eru ekki alveg sammála því hvort að nemendur hafa rétt á því segja skoðanir sínar.“
Inntur eftir nánari upplýsingum segir Ómar að nemendurnir hafi farið af stað með undirskriftasöfnun. Hún hafi aðallega verið lofuð, „99%, eða nær eingöngu fengið jákvæð viðbrögð og fólki hlýnar um hjartarætur að börn eða unglingar taki svona mál upp, vilji fylgja því eftir, taki tímann frá í þetta og finnist annað ekki jafn mikilvægt.“ Í stóru samfélagi séu hins vegar alltaf einhverjir „sem gera athugasemdir við, í raun og veru bara tæknilega útfærslu á undirskriftasöfnuninni“. Nánar til tekið hefur skólanum borist það álit, segir Ómar, að „unglingar megi ekki segja skoðun sína án þess að foreldrar þeirra samþykki það.“
Takmarkast undirskriftasöfnun nemendanna við nemendur skólans eða fer hún víðar?
„Hún átti ekki að gera það en svar okkar við gagnrýninni verður sennilega það, já, að hún fer út fyrir skólann. Ég vonast til að hún fari aftur af stað fyrir helgi, mögulega á föstudag, eða annars strax eftir helgi.“