„Ekki var talið, að með sáttmálanum væri verið að veita Íslendingum ný réttindi“
Mannréttindahugtak Bjarna, Björns og Bjarna er ranghugmynd
„Þeir töldu lýðréttindin … í raun sama eðlis og réttur Íslendinga á þjóðveldisöld“
„Þegar Íslendingar fullgiltu mannréttindasáttmálann, voru ekki gerðar neinar breytingar á íslenskum lögum. Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra, lét þau orð falla í þingumræðum um fullgildinguna haustið 1951, að réttindin í sáttmálanum væru í öllu því sem nokkru máli skipti þá þegar veitt borgurunum berum orðum í íslenskri löggjöf og að nokkru leyti í stjórnarskránni. Þessi ummæli sýna ótvírætt, að ekki var talið, að með sáttmálanum væri verið að veita Íslendingum ný réttindi heldur staðfesta með alþjóðasamningi þau, sem þeir þegar nutu.
Var þannig frá upphafi talið, að íslensk löggjöf samræmdist í hvívetna ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. Fullgilding hans leiddi til þjóðréttarlegrar skuldbindingar á réttindum, sem þegar voru talin vera fyrir hendi. Er þessi skoðun í samræmi við almennt viðhorf Íslendinga á 19. og 20. öld. Þeir töldu lýðréttindin, sem þá voru að ryðja sér rúms, í raun sama eðlis og réttur Íslendinga á þjóðveldisöld til að leysa mál í krafti laga og réttar með virðingu fyrir einstaklingnum og án framkvæmdavalds, sem deildi og drottnaði.“
Þetta er hluti erindis sem Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, flutti í september 2003 á málþingi Lögfræðingafélags Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands í tilefni af 50 ára afmæli Mannréttindasáttmála Evrópu.
Leiðrétt eftir birtingu: Þegar greinin birtist fyrst var því haldið fram að Björn virtist hafa fjarlægt erindið af vef sínum, bjorn.is, en það mætti enn finna á vef Stjórnarráðsins. Björn hefur í millitíðinni bent á rétta slóð á vef sínum, þar sem erindið er enn að finna. Meintu hvarfi erindisins var í fyrstu tekið sem vísbendingu um að Björn hefði í millitíðinni „gert sér grein fyrir hversu fjarstæðukennd sú hugmynd er að nútímahugtakið mannréttindi sé „í raun sama eðlis og réttur Íslendinga á þjóðveldisöld“.“ Það hefur nú verið leiðrétt, um slík sinnaskipti hafa engar vísbendingar komið fram.
Til að segja það skýrt: Réttur Íslendinga á þjóðveldisöld rúmaði þrælahald. Hann rúmaði manndráp og aftökur. Hann rúmaði pyntingar.
Hann verndaði ekki tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi eða trúfrelsi. Ekki funda- og félagafrelsi. Hann fól ekki í sér neina hugmynd um ferðafrelsi. Reyndar byggði réttur Íslendinga á þjóðveldisöld ekki yfirleitt á neinni hugmynd um frelsi eða mannhelgi. Réttur Íslendinga á þjóðveldisöld var réttur sumra, annarra ekki, og þar með ekki réttur í nútímaskilningi. Meira eða minna öll mismunun var leyfð samkvæmt rétti Íslendinga á þjóðveldisöld. Rétturinn til að stofna til hjúskapar var réttur eignafólks. Rétturinn til að leita réttar síns var réttur eignafólks. Rétturinn til þess sem þó var litið á sem réttláta málsmeðferð fyrir dómi var réttur eignafólks.
Ég veit ekki hvort það er til nokkur vitlausari hugmynd um mannréttindi en að þau séu „í raun sama eðlis og réttur Íslendinga á þjóðveldisöld“. Þetta tvennt eru hugsanlega einhverjar hreinustu andstæður sem finna má milli grundvallarhugmynda ólíkra söguskeiða.
Erindi Björns Bjarnasonar kennir okkur eitt eða tvennt. Í fyrsta lagi að faðir Björns, Bjarni Benediktsson, og hans kynslóð, las ekki Mannréttindasáttmála Evrópu fyrir undirritun, eða gerði ekki ráð fyrir að orðin í plagginu skiptu máli. Þetta segir Björn svo gott sem berum orðum. Í öðru lagi, ef rétt er að Björn hafi nýverið fjarlægt erindið af vef sínum, getum við kannski gert ráð fyrir að frá flutningi þess hafi hann þó hugsanlega lesið sáttmálann, eða heyrt eitthvert útlenskt tal um hugmyndirnar að baki honum, séð hvað skilningur þeirra feðga var glórulaus.
Allt tal Sjálfstæðismanna um dóm Mannréttindadómstólsins gegn Íslandi í liðinni viku er hins vegar til marks um að flokkurinn vilji forðast í lengstu lög að skilningur á mannréttindum sem almennum rétti hreiðri um sig á landinu, heldur lengja aðeins í lestri Bjarna Benediktssonar og samfélagsgerð sem grundvallast á „rétti Íslendinga á þjóðveldisöld“. Skiljanlega, enda hefur hún reynst þeim ábatasöm.