Lögreglan segir mótmælendur hafa hindrað aðgang
Lögregla stöðvaði mótmæli og handtók þrjú við byggingu Alþingis
Mótmælendur segjast hafa stillt sér upp við innganga til að fanga athygli
„Starfsmenn Alþingis óskuðu eftir aðstoð að Alþingishúsinu þar sem mótmælendur hefðu hindrað aðgang fólks, bæði starfsfólks og gesta, að húsinu.“ Þetta sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þegar Kvennablaðið hafði samband við embættið í leit að upplýsingum um handtöku þriggja mótmælenda upp úr hádegi á þriðjudag. Samkvæmt heimildum Kvennablaðsins eru þau þrjú sem handtekin voru íslenskir ríkisborgarar.
„Lögregla fór á vettvang,“ sagði Ásgeir, „og gaf fólkinu fyrirmæli um að færa sig úr stað. Þau mættu að sjálfsögðu mótmæla en þyrftu að færa sig frá þannig að inngangarnir væru ekki blokkeraðir, ekki hindruð umferð um hurðirnar. Flest þeirra brugðust svona á endanum ágætlega við því. En þrjú þeirra gerðu það ekki. Og þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli um að færa sig gerðu þau það ekki og voru handtekin. Og eru hérna á lögreglustöðinni núna.“
Ásgeir segir að 25–30 mótmælendur hafi verið á staðnum, „við þrjá staði þarna en sátu síðan öll saman þegar lögregla kom á vettvang.“
Og mótmælin beinlínis hindruðu að fólk kæmist inn í bygginguna?
„Ja, þau stóðu bara í veginum þannig að fólk þurfti að troðast í gegnum þau til að komast inn og út.“
Lögregla hefur þá leyst upp mótmælin eða mótmælunum lokið í kjölfarið á handtökunum?
„Já já, mótmælunum lauk svona 15–20 mínútum eftir að lögregla kom á vettvang þannig að starfsemi þingsins er komin í eðlilegt horf, eins og staðan er núna.“
Segjast ekki hafa ætlað að hindra för
Fulltrúar mótmælenda segja í tilkynningu að þau hafi ekki hindrað að fólk kæmist leiðar sinnar í húsið, en viljað tryggja, með staðsetningu mótmælanna, að eftir þeim yrði tekið. Lögregla hafi komið á vettvang, ýtt þeim úr gangveginum og handtekið þrjá úr hópi mótmælenda. Frásögn þeirra birtist í tilkynningu sem hópurinn Refugees in Iceland birti klukkan að nálgast 14:30 á þriðjudag. Þar kemur fram að hópurinn hyggist mótmæla handtökunum við lögreglustöðina að Hlemmi.
Við spurðum yfirlögregluþjóninn hvort beitt hefði verið valdi við handtökuna. Ásgeir svaraði: „Handtaka er valdbeiting. Númer eitt eru skipanir, sem var klárlega beitt. Númer tvö eru lögreglutök, og þeim var beitt. En ekkert annað,“ það er hvorki piparúða né kylfum.
Aðspurður hvort ætla megi að mótmælendum verði haldið lengi í gæsluvarðhaldi fram að yfirheyrslu svaraði Ásgeir: „Nei, það er verið að ganga frá þessu bara núna. Ég á ekki von á að þau verði lengi hjá okkur.“