Segja „nýjar og veigamiklar upplýsingar“ sýna að matið sé rangt
Miðflokksmenn tefja birtingu álits Siðanefndar um Klausturmál
Fóru fram á frest til athugasemda sex mínútum fyrir fyrirhugaða birtingu
Kvennablaðinu barst, eins og öðrum fjölmiðlum, tilkynning frá Miðflokknum, þegar klukkan var að ganga miðnætti á þriðjudagskvöld.
Tilkynningin snýst um mat Siðanefndar Alþingis um Klausturmálið, svonefnda, þar sem þingmenn Miðflokksins voru staðnir að því að bera í þingmenn Flokks fólksins víurnar með harðsvíruðu baktali, jafnvel níði, um aðra stjórnmálamenn, einkum konur og fólk með fötlun. Þá varð ljóst á tali þingmannanna að þeir höfðu hug á viðskiptum um opinberar stöður við framámenn í Sjálfstæðisflokknum.
Verslun með sendiherrastöður
Gunnar Bragi Sveinsson hreykti sér af því að hafa keypt þögn Vinstri grænna þegar hann skipaði Geir H. Haarde í sendiherrastöðu. Gunnar Bragi sagði meðal annars:
„Þegar ég á fund með Bjarna í Forsætisráðuneytinu, nei í Fjármálaráðuneytinu, og ég segi við Bjarna: Bjarni, algjörlega sjálfsagt, auðvitað geri ég Geir að sendiherra. Þá segi ég við Bjarna: Bjarni, mér finnst bara sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda. Og það var ekki vegna þess að þá hafi ég verið að hugsa um að skipta um flokk, skilurðu. Ég hugsaði bara með mér: Já, af hverju ætti ég að láta … fyrir ekki neitt?“
Sigmundur Davíð staðfesti þessa frásögn Gunnars Braga og sagði:
„Af því ég veit þetta er rétt. … Bjarni má eiga það, hann viðurkenndi það, að hann hefði … við sig. Að Bjarni, þegar ég hitti hann, við sátum hérna í klukkutíma og áttum spjall. Bjarni fór út um víðan völl en niðurstaðan var sú að hann hefði fallist á það að ef þetta gengi upp þá ætti Gunnar inni hjá Sjálfstæðismönnum. … Næsta skref var að hitta Bjarna með Gulla Þór, sem var í tygjum við Bjarna. Og við hittumst hér inni, sátum saman og … Bjarni má eiga það, að … hann fylgdi málinu eftir. Á dögunum. Við erum komnir í samskipti við menn. Gunnar Bragi bíður eftir niðurstöðu.“
Eftir að upp komst um þessi samskipti þingmannanna á barnum Klaustur, virðast allir sem að málinu komu hafa fallið frá skipan Gunnars Braga í stöðu sendiherra. Þeir þingmenn Flokks fólksins sem sóttu fundinn gengu aftur á móti til liðs við þingflokk Miðflokksins í kjölfar uppljóstrananna. Því má segja að Miðflokkurinn tali nú fyrir hönd allra þeirra sem sátu fundinn á Klaustri.
Fóru fram á frest 6 mínútum fyrir birtingu
Siðanefnd Alþingis var í kjölfarið falið að fjalla um þetta atvik, hátterni þingmannanna á barnum og annað hátterni sem þar varð uppvíst um. Nefndin hefur nú skilað þinginu áliti, sem stóð til að birta kl. 19:00 í gærkvöldi, þriðjudagskvöld. Rétt upp úr klukkan 19 þetta kvöld birtu Vísir, RÚV og fleiri fjölmiðlar stuttar fréttir um lykilatriði í áliti nefndarinnar: að samtal þingmannanna á barnum geti ekki talist einkasamtal heldur eigi efni þess erindi við almenning.
Miðflokksmenn virðast nú freista þess að leiða athyglina burt frá kjarna málsins: Klukkan 18:54, sex mínútum fyrir fyrirhugaða birtingu álitsins, barst Steinunni Þóru Árnadóttur tölvupóstur frá þingflokki Miðflokksins, með athugasemd við birtinguna, þar sem fyrir lægju „nýjar og veigamiklar upplýsingar sem sýndu að mat Siðanefndarinnar væri byggt á röngum forsendum“.
„Pólitískt eðli málsins er nú staðfest enn á ný“
Steinunn Þóra hefur, sem varaforseti, séð um samskipti við Siðanefnd vegna málsins, eftir að aðrir lýstu sig vanhæfa í því samhengi. Hún tók álitið úr birtingu um leið og hún varð vör við skeyti Miðflokksmanna. Þá hafði skrifstofustjóri Alþingis samband við fréttastofu RÚV og freistaði þess að fá starfsmenn þar til að afturkalla frétt um málið sem þegar hafði verið birt.
Í tilkynningu Miðflokksins sem send var fjölmiðlum nær miðnætti á þriðjudagskvöld segir meðal annars: „Pólitískt eðli málsins er nú staðfest enn á ný og þurfti ekki frekari vitnanna við.“ Virðast þeir vísa til þess að RÚV hafi birt frétt um efni álitsins, sem þá hafði þegar birst á vef Alþingis. Eða eitthvað í þá veru. Tilkynninguna sendi Miðflokkurinn sem myndskjal í viðhengi við tölvupóst, en ekki sem texta, og er myndskjalið hér meðfylgjandi.
Þingmönnum Miðflokksins virðist hafa tekist að fresta frekari umfjöllun um álit Siðanefndarinnar. Ritstjórn Kvennablaðsins kom að minnsta kosti ekki höndum yfir eintak af því áður en það var tekið úr birtingu á vef Alþingis.