Andleg líðan umsækjenda um alþjóðlega vernd virðist verri en áður, segir RKÍ
Færður í járnum á bráðamóttöku eftir sjálfsvígstilraun
Útköllum áfallateymis RKÍ fjölgaði úr 9 í 26 milli ára
Mohsen, karlmaður um fimmtugt sem gerði tilraun til sjálfsvígs á skrifstofu Rauða krossins (RKÍ) á þriðjudag, var þar staddur í opnum viðtalstíma sem sem Rauði krossinn starfrækir fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þetta kemur fram í svörum frá RKÍ við spurningum Kvennablaðsins um atvikið. Þar geta umsækjendur um alþjóðlega vernd leitað eftir upplýsingum um meðferð umsóknar sinnar, „komið með ábendingar, fyrirspurnir og umkvartanir sem verkefnastjórar og/eða lögfræðingar ýmist svara eða leiðbeina einstaklingum hvert þeir eigi að leita“. Það sem fram fer í slíkum tímum efnislega telst trúnaðarmál.
Fluttur á sjúkrahús í járnum
Mohsen hefur dvalið á Íslandi um tíu mánaða skeið. Hann þjáist af líkamlegum og andlegum heilsubresti og segist ekki hafa notið nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu. Eftir atvikið á miðvikudag flutti lögregla manninn frá skrifstofu Rauða krossins á bráðamóttöku Landspítalans. Þangað var hann færður í járnum, samkvæmt heimildum Kvennablaðsins. Mohsen hefur beðið um að fram komi að hann hvorki vilji né myndi vinna neinum öðrum mein, og ekkert hefur gefið til kynna að öðrum stafi hætta af manninum. Eftir sem áður viðhafði lögreglan þetta verklag, að færa hann í handjárn, með sár á hálsinum sem gert var að á bráðamóttöku með tíu spora saumi.
Við virðumst hafa farið með rangt mál í fyrstu frétt um atvikið, þar sem við sögðum að eftir þessa aðhlynningu á bráðadeild hafi maðurinn fengið viðtal á geðdeild, áður en hann var sendur heim. Hið rétta virðist vera að sálfræðingur á bráðamóttöku hafi rætt við hann stuttlega. Hann spurði meðal annars hvort maðurinn teldi að hann myndi reyna að fremja sjálfsvíg á nýjan leik. Því svaraði Mohsen játandi. Eftir sem áður var honum sagt að fara heim en boðið að koma aftur daginn eftir á sjúkrahúsið í hópmeðferðartíma.
Starfsfólki boðin áfallahjálp
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum var starfsfólki, sjálfboðaliðum og öðrum sem urðu vitni að atvikinu boðinn sálrænn stuðningur í kjölfar þess. „Sálfræðingur Rauða krossins og sviðsstjóri hjálpar-og mannúðarsviðs félagsins voru komnir í húsnæði Rauða krossins í Hafnarfirði stuttu eftir atvikið“ segir í svörum RKÍ, og verður frekari stuðningur veittur eftir atvikum.
Fulltrúi RKÍ segir að Útlendingastofnun beri ábyrgð á að fylgjast með ástandi skjólstæðinga sinna eftir atvik sem þetta, og sjá til þess að þeir njóti viðhlítandi heilbrigðisþjónustu. Kvennablaðið hefur ekki leitað upplýsinga um málið hjá Útlendingastofnun.
Hending réði að fréttist af málinu
Hending réði því að Kvennablaðið frétti af þessu tiltekna máli, sem þá hafði ekki verið greint frá í öðrum fjölmiðlum, né hafði borist tilkynning um það frá RKÍ, lögreglu eða öðrum aðilum sem að því komu. Það vekur ugg með okkur um að hugsanlega hafi fleiri hliðstæð tilfelli komið upp síðustu misseri, sem ekki hefur verið greint frá opinberlega. Útlendingastofnun virðist ekki hafa yfirsýn yfir tölfræði slíkra tilfella, það er sjálfsskaða flóttafólks eða umsækjenda um vernd. Því spurðum við fulltrúa Rauða krossins hvort félagið haldi slíkum upplýsingum til haga. Hann svaraði því til að ekki sé haldin sérstök skrá um slíkt, nema talning á útköllum áfallateymis RKÍ. Eins og þegar hefur komið fram í fréttum hafi slíkum útköllum fjölgað úr 9 í 26 milli áranna 2017 og 2018. Þá hafi RKÍ vakið athygli á því nýverið að:
„að andleg líðan umsækjenda um alþjóðlega vernd virðist verri en áður. Má það bæði rekja til þess að margir hafa verið lengi á flótta, upplifað mörg áföll í heimaríki sem og á flóttanum. Auk þess eru svo þættir sem hafa áhrif á líðan hér á Íslandi, s.s. upplifun margra á ófullnægjandi þjónustu, aðbúnaði og málsmeðferð sem hefur því miður aftur verið að lengjast.“