Flóttamaður frá Íran í hungurverkfalli
Mohsen hættir neyslu vökva á sjötta degi hungurverkfalls
Allar ásakanir Mohsens í garð íslenskra stjórnvalda hafa staðist til þessa
Mohsen Parnian, flóttamaður frá Íran, tilkynnti í dag, föstudaginn 5. apríl, á sjötta degi hungurverkfalls síns, að hann hafi einnig látið af neyslu vökva. Líkamlegri starfsemi hnignar mun hraðar án vatns en án fæðu.
Kvennablaðið hefur fjallað um mál Mohsens frá miðvikudeginum 27. mars, fyrir rúmri viku, þegar hann skar sig á háls eftir viðtal í húsnæði Rauða krossins í Efstaleiti. Mohsen var færður í járnum á bráðamóttöku Landspítalans þar sem gert var að sárinu með tíu spora saumi. Í kjölfarið hóf hann hungurverkfall.
Mohsen er ekki hælisleitandi í þeirri merkingu að vafi leiki á um tilefni hans til flótta frá Íran: staða hans og réttur sem flóttamanns hefur þegar verið viðurkennd af þartilbærum yfirvöldum á Ítalíu. Hann kom til Íslands frá Danmörku og hefur sótt um dvalarleyfi á Íslandi. Á meðan umsókn hans bíður afgreiðslu dvelur hann í húsnæði sem Útlendingastofnun (ÚTL) starfrækir, í Bæjarhrauni í Hafnarfirði.
Mohsen segir að fulltrúar íslenskra stjórnvalda pynti sig. Hann segist í fyrsta lagi ekki hafa aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann þarfnast, í öðru lagi hafi greiðslu fæðispeninga verið haldið frá honum um níu vikna skeið, í þriðja lagi sé komið fram við hann af fyrirlitningu.
Allar ásakanir Mohsens standast
Ásökun Mohsens um að fæðispeningum hafi verið haldið frá honum fékk Kvennablaðið staðfesta frá ÚTL sjálfri á fimmtudag. Eitt og sér myndi það, að neita manni um næringu yfir lengri tíma, nægja til að réttlæta notkun orðsins pyntingar.
Aðgangi Mohsens að heilbrigðiskerfinu er stýrt af lækni innan vébanda ÚTL, og mati hans á því hvort þjónustan er „nauðsynleg“. Hvað telst nauðsynleg heilbrigðisþjónusta er ekki skilgreint nánar í lögunum og virðist því háð skilningi þessa læknis hverju sinni. Ekki er að sjá að í íslenskum lögum sé aðgangur neinna annarra hópa að heilbrigðisþjónustu takmarkaður með þessum hætti eða orðalagi.
Um miðja þessa viku fjarlægðu starfsmenn Útlendingastofnunar lyf úr herbergi Mohsens, meðal annars verkjalyf sem hann hefur brýna þörf fyrir.
Hvert orð sem Mohsen hefur látið frá sér um forsendur hungurverkfallsins hefur þannig reynst eiga við rök að styðjast, eftir því sem næst verður komist, og staðist efnislega athugun ritstjórnar svo langt sem hún nær.
Um leið og það er fáránlegt að rökstyðja sérstaklega að hungurverkfall manns í viðkvæmri stöðu beri að taka alvarlega, hvað þá þegar þekkt er að viðkomandi hefur nýverið gert alvarlega tilraun til sjálfsvígs, drögum við þetta saman hér, þar sem borið hefur á því á samfélagsmiðlum og jafnvel í hópi blaðamanna, að dregið sé dár að stöðu Mohsens og grafið undan trúverðugleika hans með dylgjum. Þar ber lægst texta sem birtist í DV á föstudag og snerist einkum um sögu sonar hans, sem býr í Danmörku. Ritstjórn Kvennablaðsins sér ekki ástæðu til að draga í efa alvöruna að baki sjálfsvígstilraunum eða hungurverkfalli Mohsens Parnian.